Flugfélagið Air India flýgur nú lengsta áætlunarflug allra flugfélaga, eftir að hafa skipt um flugátt á leið sinni milli Delhi og San Francisco.

Flugtíminn styttist þrátt fyrir lengri flugleið

Áður flaug flugfélagið á milli áfangastaðanna með því að fljúga í vesturátt frá Delhi, það er yfir Atlantshafið en með því að fljúga frekar í austurátt yfir Kyrrahafið bættust 1.400 kílómetrar við flugleiðina.

Við breytinguna styttist samt sem áður flugtíminn um tvo klukkutíma, sem fór niður í 14 og hálfan tíma viðstöðulaust flug.

Græddi á meðvindum

Áður var flugleið Emirates flugfélagsins milli Dubai og Auckland á Nýja Sjálandi sú lengsta sem flogið er í áætlunarflugi eða 14.120 kílómetrar að lengd, en með breytingunni fór flugleið Air India í 15.300 kílómetra.

Með því að fljúga austurleiðina græddi flugvélin einnig á meðvindum, en með því að fljúga yfir Atlantshafið þurfti flugvélin að fljúga gegn mótvindi sem nam 24 km á klukkustund sem gerði það að verkum að hraði vélarinnar nam 776 km á klukkustund.

Hins vegar á austurleiðinni yfir Kyrrahafið nam meðvindurinn 138 km á klukkustund, sem þýðir að hraði vélarinnar miðað við jörðina nam 938 km á klukkustund.

Hóf flug kl. 4 að morgni og lenti 6:30 að morgni sama dags

„Flugvélin lagði í hann frá Delhi klukkan 4 að morgni á sunnudegi 16. október, en eftir að hafa flogið yfir daglínuna var flugvélin komin aftur á laugardaginn 15. október. þegar vélin loksins lenti í San Fransisco var klukkan orðin 6:30 að morgni 16. október,“ sagði einn flugmanna vélarinnar.

Met flugfélagsins mun þó ekki standa lengi yfir þar sem Singapore Airlines hyggst hefja á ný flug frá Singapore beint til New York, en það mun ná yfir 16.500 kílómetra og standa í 19 klukkustundir.