Alþjóðasamtök flugfélaga, International Air Transport Association, spá því að á heimsvísu muni flugiðnaðurinn skila hagnaði á næsta ári, 10. árið í röð. Gangi spáin eftir yrði það lengsta samfellda hagnaðarskeið í sögu flugreksturs. Financial Times greinir frá .

Helstu ástæður spárinnar eru góðar horfur í efnahagsmálum og fallandi olíuverð. Samtökin spá því að samanlögð afkoma greinarinnar á heimsvísu verði jákvæð um 35,5 milljarða dollara á næsta ári, um 4.400 milljarða króna, sem væri 10% aukning milli ára, en þó minna en þeir 37,7 milljarðar dolla sem greinin hagnaðist um í fyrra.

Forsendur spárinnar eru að meðalverð Brent-hráolíu falli úr 73 dollurum á tunnu að meðaltali á þessu ári, í 65 dollara á því næsta, og 3,1% hagvöxtur í heiminum, samanborið við 3,2% í ár.

Brian Pearce, aðalhagfræðingur samtakanna, segir evrópsk flugfélög þó ekki líkleg til að græða mikið á olíuverðslækkuninni, þar sem þau hafi að meðaltali 70-80% fyrirfram ákveðin olíuverð næsta árið vegna olíuvarna. Bandarísk flugfélög verji sig hinsvegar almennt ekki fyrir sveiflum í olíuverði, og muni því njóta góðs af lækkuninni í mun ríkari mæli.