Ef þjóðhagsspá fram til 2021 gengur eftir verður þetta lengsta hagvaxtartímabil í nútímahagsögu Íslands. Samtök Atvinnulífsins vara sterklega við því að ríkið ætli að auka umsvif sín verulega á tímabilinu og þannig ýta undir þenslu á vinnumarkaði og hafa samtökin miklar áhyggjur af afleiðingum þess á launaskrið og verðbólgu.

Meiri útgjaldaaukning á þennslutímabili fyrir hrun

Hagstofan birti þjóðhagsspána í febrúar en á henni bygga efnahagslegar forsendur fjármálastefnu ríkisins sem verið er að setja fram fyrir tímabilið. Segja Samtök Atvinnulífsins að frumgjöld hins opinbera muni vaxa meira á fjárhagstímabilinu en á þennslutímabilinu fyrir hrun en áætla megi að útgjöld ríkissjóðs verði 15-20 milljörðum hærra en ef tillaga samtakanna um að setja útgjaldareglu í fjárhagsáætlunina hefði verið hlýtt.

Samtök Atvinnulífsins taka undir helstu sjónarmiðin sem liggja að baki fjárhagsáætlunar ríkissjóðs fyrir árin 2017-2021 í umsögn sinni um hana. Þó taka þeir fram að aðhald í útgjöldum ríkissjóðs verði ekki nægilegt miðað við fjármálaáætlunina þó afkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi og skuldir ríkissjóðs lækki verulega.

Ríkið eigi ekki að örva heldur hægja á vexti hagkerfisins

Nauðsynlegt sé að forðast að örva hagkerfið heldur ætti fremur að hægja á of örum vexti heildareftirspurnar og verðbólgu. Þjóðhagslegur sparnaður þurfi að aukast tímabundið og tryggja aukna sveiflujöfnun hagkerfisins með aðhaldsamri stefnu um vöxt ríkisútgjalda og greiða skuldir ríkisins.

Þetta sé nauðsynlegt því spenna sé að myndast þar sem heildareftirspurn verður umfram framleiðslugetu. Framleiðni vinnuafls hafi staðið í stað og verðbólga hingað til haldist lág þrátt fyrir miklar launahækkanir í kjarasamningum svo kaupmáttaraukning hafi verið meiri en ráð hafi verið fyrir gert.

Samtökin segja það afar brýnt að hið opinbera haldi sig til hlés í samkeppninni um vinnuafl á næstu árum til að forðast vaxandi verðbólgu samfara vaxandi eftirspurn í hagkerfinu.

Útgjaldaregla nauðsynleg til að hamla vexti ríkisútgjalda

Endurtaka þeir nauðsyn þess að útgjaldareglu verði bætt við fjármálastefnu hins opinbera líkt og í fyrri umsögn sinni til frumvarps til laga um opinber fjármál. Ekki sé nóg að hafa einungis reglur um afkomu- og skuldaþróun heldur ætti að setja reglur sem tryggi að nafnvöxtur útgjalda hins opinbera, að frádregnum vaxtagjöldum, vaxi ekki umfram langtíma meðalhagvöxt að viðbættu verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Myndi svoleiðis regla takmarka árlegan útgjaldavöxt og þvinga stjórnvöld til að halda sig innan setts ramma. Reynsla þensluáranna sýni að afkoma er ekki fullnægjandi skilyrði á aðhald opinberra fjármála, t.d. hafi rekstur hins opinbera uppfyllt skilyrði hvort tveggja skulda- og afkomureglunnar árin 2006 og 2007.

Samanlögð afkoma hafi verið jákvæð yfir 5 ára tímabil og skuldir hins opinbera hafi verið langt undir 45% skuldaþakinu, en samt sem áður hafi útgjöld hins opinbera vaxið mikið og aukið þenslu í hagkerfinu. Nafnvöxtur ríkisútgjalda á árunum 2000 til 2007 hafi verið 10% en útgjaldaregla hefði getað komið böndum þar á.

Reglur um útgjaldahemil reynst vel annars staðar

Þess má geta að kjósendur í Sviss samþykktu að setja í stjórnarskrá reglu um útgjaldahemil í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2001 sem tryggir að útgjöld ríkisins geti ekki farið fram úr meðalaukningu skatttekna yfir tiltekið tímabil. Sviss komst ágætlega í gegnum bankakreppuna þrátt fyrir að hagkerfið væri mjög háð bankastarfssemi. Að auki er bundið skattahámark í stjórnarskrá landsins.