Í ávarpi forseta Alþingis, Einars Kristins Guðfinnssonar við þingfrestun í dag kemur fram að það þing sem nú sé að ljúka sé það lengsta talið í þingfundadögum.

Aldrei fleiri umræður utan dagskrár

„Þeir hafa verið 147. Það þing sem kemst næst þessu þingi í fjölda þingfundadaga er 116. þing sem hófst 17. ágúst 1992 og lauk 9. maí 1993, en þá voru þingfundadagar 131,“ segir Einar Kristinn í ávarpi sínu.

„Þetta langa þing hefur haft ýmislegt í för með sér, m.a. hafa ráðherrar aldrei svarað, óundirbúið, jafn mörgum fyrirspurnum frá þingmönnum, 347 fyrirspurnum. Störf þingsins hafa verið á dagskrá á 64 þingfundum og af því má leiða að þingmenn hafi 960 sinnum kvatt sér hljóðs undir þeim dagskrárlið.

Sérstakar umræður voru 58 og hafa bara einu sinni áður — á meðan þær hétu umræður utan dagskrár — verið fleiri á sama þingi. Þá hafa l07 lagafrumvörp hlotið samþykki á þessu þingi og síðast en ekki síst hafa aldrei fyrr verið samþykktar fleiri þingsályktanir en nú, alls 72 ályktanir.“

Vill auka völd forseta þingsins og stytta umræður

Einnig talar Einar Kristinn um nauðsyn þess að koma á meira skipulagi í þingstörfum til að skapa traust til Alþingis og vísar hann til samanburðar við nágrannaþing þar sem umræður í þingsalnum taka minni hluta af þingstörfunum en hér.

„Í þeim þingum sem standa okkur nærri er skipulagður rammi um umræður í þingsal og um leið tryggður nægilegur og góður tími fyrir þær umræður. En þar gildir líka það fyrirkomulag að forseta þingsins er ætlað meira vald til að skipuleggja umræðurnar og setja um þær tímaramma,“ segir Einar Kristinn og kveður að lokum vinnustað sinn til 25 ára.

„Þar sem ég er í hópi þeirra þingmanna sem láta nú af þingmennsku vil ég þakka samþingsmönnum mínum öllum fyrir mjög góða viðkynningu og samstarf á umliðnum árum og áratugum, samstarf sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Hér hefur mér þótt gott að starfa og ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um störf mín á Alþingi.“