Í gær gaf evrópska fjársýslan út krónubréf fyrir þrjá milljarða króna til fimm ára sem er lengsta útgáfa erlendra skuldabréfa í krónum til þessa.

Greiningardeild Kaupþing banka telur að útgáfan sé til vísbendingar um að erlendir fjárfestar séu nú farnir að veðja á að gengi íslensku krónunnar haldist hátt þar til árið 2011 vegna áhrifa frá stóriðjuframkvæmdum. Erlendu fjárfestarnir eru því að gefa gaum að þeim þremur stóriðjuverkefnum sem nú eru á teikniborðinu og myndu standa til ársins 2012 ef út í þær verður farið.

Eins og Ingólfur Bender hjá Íslandsbanka sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í gær þá myndu áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir hafa þau áhrif að Seðlabankinn myndi halda stýrivöxtum háum til að hafa hemil á þenslu. Það myndi tryggja áframhaldandi vaxtamun við útlönd sem hefur styrkingaráhrif á krónuna.

Evrópska fjársýslan hefur gefið út krónubréf fyrir 18 milljarða frá áramótum, en alls hafa verið gefin út krónubréf fyrir tæpa 180 milljarða króna segir í tilkynningu Kaupþings banka.