Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er sá lengsti í Íslandssögunni, um 9.600 orð á 60 síðum.

Katrín Jakobsdóttir sagði í gær, áður en sáttmálinn var undirritaður, að hluta til skýrðist lengd hans af því hve rúman tíma flokkarnir hefðu haft, um tvo mánuði frá lokum kosninganna. Flokkarnir vildu ekki kynna nýja ríkisstjórn á meðan niðurstöðu undirbúningskjörbréfanefndar Birgis Ármannssonar um talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi var beðið. Katrín sagði að líta mæti á fyrri hluta plaggsins sem eiginlegan stjórnarsáttmála en þann síðari sem aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

Lengsti stjórnarsáttmáli fram til þess var hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum árinu 2009 þar sem flokkarnir boðuðu víðtækar breytingar á samfélaginu í 7.000 orðum. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar árið 2017 var sá næst lengsti til þessa um 6.200 orð. Því eiga þrjár ríkisstjórnir Vinstri grænna heiðurinn að þremum lengstu stjórnarsáttmálum Íslandssögunnar.

Orðaverðbólga stjórnarsáttmála

Stjórnarsáttmála áranna fyrir bankahrunið voru mun styttri. Stjórnarsáttmálar ráðuneyta Davíðs Oddssonar á árunum 1995 til 2003 voru um 1.800-2.000 orð. Sama málsegja um stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007 sem taldi um 2.400 orð.

Árið 2013 var stjórnarsáttmáli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um 4.000 orð. En stjórnarsáttmálar áranna 2017, þegar tvær ríkisstjórnir tóku við völdum taldi um 6.000 orð.

Katrín leggur meira upp úr grafískri hönnun

Þá hafa ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur veitt grafískum hönnuðum stærra hlutverk við gerð sáttmálanna en áður og þannig ná þeir yfir mun fleiri síður. Stjórnarsáttmálinn 2017 var sá lengsti til þessa í blaðsíðum talið um 37 síður. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna kom á sínum tíma, árið 2009, 7.000 orðum fyrir á 17 síðum. Þéttskrifaðasti textinn var þó líklega hjá skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem kom um 5.700 orðum fyrir á tíu síðum í upphafi árs 2017.

Tryggja, áfram, stuðla, unnið...

Hvað varðar nýjan stjórnarsáttmálann kemur orðið „að“ oftast fyrir, nær 500 sinnum og „verða“ eða „verður“ yfir 300 sinnum. Þá er „við“ nefnt yfir 200 sinnum enda segir ríkisstjórnin að „við tökumst á við...“ í sáttmálanum.

Þá má finna ýmis orðasambönd og frasa sem búast mátti við í stjórnarsáttmála.Tryggja, áfram, stuðla, unnið, lögð, áhersla, uppbygging, efla eru til að mynda meðal orða sem koma hvað oftast fram í sáttmálanum. Enda ætlar ný ríkisstjórn að tryggja að áfram verði unnið og stuðlað að og lögð áhersla á uppbyggingu þvert á málaflokka.

Hvað varðar orð sem tengja má við einstaka málaflokka má segja að tíðnitalning rími ágætlega við áherslumál flokkanna. Loftslag og umhverfi koma hvort um sig fyrir hátt í fjörutíu sinnum og sama má segja um heilbrigði sem oftast er nefnt í samhengi við heilbrigðiskerfið eða heilbrigðisþjónustu. Nýsköpun og sveitarfélög koma  ríflega þrjátíu sinnum og vinnumarkaðar fyrir ríflega tuttugu sinnum. Menntun er nefnd 18 sinnum, ferðaþjónusta 13 sinnum og regluverk 11 sinnum svo eitthvað sé nefnt.