*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 26. september 2019 07:11

Lénið wow.is til W Holding ehf.

Lén hins fallna flugfélags Wow air hefur skipt um eigendur. Stefnt er að fyrsta flugi í október.

Jóhann Óli Eiðsson
vb.is

Lén sem áður voru í eigu Wow air eru komin í hendur nýrra eigenda. Við skoðun á léninu wow.is og wowair.is á vef ISNIC sást að þann 18. september síðastliðinn voru þau skráð á félagið W holding ehf. Félagið hét áður N & M ehf. en nafni þess og lögheimili var breytt þann 12. ágúst. Samtímis var lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess en móðir hans, Dögg Pálsdóttir, er skráð eini stjórnarmaður þess.

Fyrir nafnbreytinguna var N & M ehf. í jafnri eigu Jónínu Pálsdóttur, tannlæknis og systur Daggar, og Magnúsar Guðmundssonar. Sá er gigtarlæknir og eiginmaður Jónínu.

„Þetta er félag sem er í eigu lögmannsstofunnar sem ég starfa hjá. Við eigum von á kennitölum fyrir hið nýja flugfélag fyrir lok þessarar viku. Lénin voru skráð á þetta félag til bráðabirgða fram að því en verða færð yfir um leið og það liggur fyrir,“ segir Páll Ágúst Ólafsson. Lögmannsstofan hafi tekið yfir félagið í upphafi þessa árs og hafi verið notað í umboði skjólstæðings hennar í örskamma stund.

Að öðru leyti vill Páll ekki tjá sig praktísk atriði er varða það sem fram undan er. Enn sé þó stefnt að því að WOW 2.0 fari í jómfrúarflug sitt í októbermánuði en áætlað er að það verði á milli Keflavíkur og Washington DC.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.