Sjónvarpsþáttastjórnandinn þekkti Jay Leno ákvað að sætta sig við launalækkun frekar en að segja upp starfsfólki sem vinnur við þáttinn hans, The Tonight Show. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Í síðustu viku var tilkynnt um uppsögn tuttugu starfsmanna sem unnið hafa við þáttinn. Þetta er sagt vera hluti aðgerða til að draga úr kostnaði við framleiðslu þáttanna en þrátt fyrir að þeir hafi lengi verið með vinsælustu sjónvarpsþáttum í Bandaríkjunum vilja sérfræðingar meina að tekjuöflun gangi ekki sem skyldi.

Samkvæmt talsmanni Leno vill hann tryggja samstarfsfólki sínu áframhaldandi vinnu og bauðst því til að lækka laun sín um 5 milljónir bandaríkjadala, niður í 20 milljónir.