*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 19. október 2021 09:29

Ís­lenska líf­eyris­kerfið beint á toppinn

Ísland er í efsta sæti á lista yfir styrk lífeyriskerfa. Minni skuldir auk hækkandi lífeyristökualdurs mun hækka einkunnagjöfina frekar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslenska lífeyriskerfið trónir á toppnum í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að og birt var í morgun. Um er að ræða fyrsta skiptið sem Ísland er tekið með í þessum samanburði sem nær yfir lífeyriskerfi í 43 ríkjum. Þetta kemur fram í frétt á vef Landsamtaka lífeyrissjóða.

Auk Íslands eru einungis tvö önnur lönd, Holland og Danmörk, sem komast í efsta flokk vísitölunnar. A einkunn vísitölunnar á að segja til um að lífeyriskerfi innan landsins sé fyrsta flokks, greiði góðan lífeyri, sé sjálfbært til langs tíma og að kerfið njóti trausts.

Sjá einnig: Staða eldri borgara best á Íslandi

Bent er á þrjú atriði fyrir því að Ísland hreppir efsta sæti á listanum. Í fyrsta lagi sé tiltölulega ríflegur lífeyrir frá ríkinu í gegnum Tryggingastofnun. Í öðru lagi séu hér samtryggingarlífeyrissjóðir sem nær til alls launafólks með hárri iðgjaldaprósentu sem leiðir til þess að verulegar eignir séu lagðar til hliðar fyrir framtíðina. Einnig er hrósað góðum stjórnarháttum og regluverki lífeyrissjóða í kerfi með góða eiginleika.

„Það er mikill fengur að þessum samanburði, því að þótt heildareinkunn Íslands sé góð eru ýmsar ábendingar um hvar gera mætti betur og þá einnig til hvaða ríkja við ættum helst að horfa sem fyrirmynda,“ er haft eftir Stefáni Halldórssyni, verkefnastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í skýrslu Mercer eru þrjú atriði nefnd sem Ísland getur ráðist í til að hækka stigagjöf sína. Tvö þessara atriða snúa að því að lækka skuldir á móti vergri landsframleiðslu, bæði skuldir heimila og hins opinbera. Einnig er talið unnt að hækka lífeyristökualdur eftir því sem lífslíkur halda áfram að aukast.