Eftir níu daga mun úra- og skartgripaversluninni Leonard, sem rekin hefur verið samfellt í Kringlunni í tæpa þrjá áratugi, vera lokað. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ástæðuna fyrir lokuninni nú segir Sævar Jónsson, eigandi og stofnandi verslunarinnar, vera að forsendur fyrir rekstrinum hafi breyst. Fólk versli vöruna beint frá útlöndum í gegnum netið.

„Áhugi framleiðenda á dreifingu til verslana í minni löndum eins og Íslandi hefur einnig minnkað mikið. Þeir vilja frekar sleppa milliliðum, auk þess sem þeir selja sjálfir mikið á netinu,“ segir Sævar. Netverslun Leonard, sem komið var á laggirnar í nóvember í fyrra, verður áfram starfrækt sem og verslunin Galleria á Hafnartorgi.

„Ungt fólk kaupir nær allt af netinu í dag. Þetta hefur áhrif á mann. Ég er mjög bjartsýnn á netverslunina okkar og hef fulla trú á að hún eigi eftir að vaxa og dafna,“ segir Sævar í Morgunblaðinu .