Leonard hefur skrifað undir samning við fulltrúa Kastrupflugvallar í Kaupmannahöfn og mun opna verslun með úr, skartgripi og fylgihluti á flugvellinum í júní. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


Tómas Jónasson, framkvæmdastjóri Leonard, segir verslunina á Kastrup verða um 50 fermetra í samtali við Viðskiptablaðið. "Verið er að breyta Kastrup á margan hátt. Forsvarsmenn flugstöðvarinnar líta öðrum þræði á hana sem verslunarmiðstöð og það þótti vanta ferska og "kasúal" úrabúð með nýjum vörum á flugstöðina. Menn á vegum hennar komu og skoðuðu verslunina okkar hér í Kringlunni og leist vel á, en verslunin á Kastrup verður þó nokkuð frábrugðin Leonard í Kringlunni að því leyti að hún verður meira "kasúal" í samræmi við óskir þeirra," segir hann.


Auk verslunar í Kringlunni hefur Leonard ehf. verið með verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1998 og fyrr í þessum mánuði opnaði fyrirtækið tvöfalt stærri verslun í flugstöðinni. Að auki rekur Leonard verslunina Noma í Bankastræti.


Sævar Jónsson, stofnandi og einn eigenda Leonard, segir að til standi að opna tvær verslanir hér á landi á næstu tveimur árum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.