„Ég er ekki búinn að sjá skýrsluna. Ég þarf að skoða hana áður en ég ákveð hvað á að gera við hana. Ég les hana í kvöld,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra um skýrslu starfshóps um Íbúðalánasjóðs. Starfshópurinn kynnti fyrir Guðbjarti meginhugmyndirnar fyrir helgi og skilaði svo skýrslunni af sér í dag. Nokkuð er um liðið síðan það átti að gerast en upphaflega átti starfshópurinn að skila skýrslunni af sér í lok mars. Guðbjartur segist í samtali við vb.is enn ekki hafa séð niðurstöður hópsins.

Skýrslan er tvískipt. Annars vegar skoðaði starfshópurinn það hvernig Íbúðalánasjóður getur litið út í framtíðinni, annars vegar um rekstur Íbúðalánasjóðs.

Guðbjartur segir óvíst hvort og hvernig verður unnið úr niðurstöðum skýrslunnar en efast ekki um að hún verði vegin og metin og rædd í þaula.

Ítarlega er fjallað um Íbúðalánasjóð í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.