Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í nóvember samkvæmt tölum Þjóðskrár. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir hægari hækkun húsnæðisverð og lækkun milli mánaða í nóvember meðal annars stafa af minni vexti á eftirspurn vegna minni vaxtar kaupmáttar en verið hefur.

„Síðan höfum við líka séð draga úr fjölgun ferðamanna, sem hefur einnig verið þáttur í þessum vexti eftirspurnar,“ segir Ingólfur. Á sama tíma eykst framboð á nýjum íbúðum. „Þessir tveir þættir gera að verkum að við sjáum hægari hækkun íbúðaverðs undanfarið og talsvert hægari en þegar mest var.“ Það verður þó að skoða í því ljósi að verðhækkunin sem varð á fyrri hluta nýliðins árs var að mati Ingólfs eitthvað sem getur ekki verið viðvarandi. „Sem betur fer má segja. Það hefði bara endað í einhverjum ósköpum. Við erum því komin í eðlilegri takt.“

Ingólfur segir að ekki sé viturlegt að lesa of mikið í breytingar á fasteignaverði milli einstakra mánaða. „Við höfum mælt með því að til að meta lengri tíma þró­ un þurfi einmitt að horfa lengra aftur í tímann en einn mánuð. Þá sér maður samt sem áður markverða breytingu því það er að hægja á hækkuninni. Það er í sjálfu sér í samræmi við það sem sagt hefur verið að myndi gerast,“ segir Ingólfur.

Hægir verulega á hækkunum

Í Hagsjá Landsbankans frá 20. desember segir meðal annars að „verð á fjölbýli hefur hækkað um 13,8% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 19%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 15,1%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í nóvember hækkað um 1,8% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 13,1% næstu sex mánuði þar á undan. Tími mikilla verðhækkana virðist því nær örugglega vera liðinn og vænta má að meiri ró verði á þessum markaði á næstu misserum.“

Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka frá 9. október sagði í því samhengi að á sjö árum hafi húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 90%. Þar segir einnig að ýmsir þættir bendi til að hækkun íbúðaverðs hafi náð hámarki og bent á að miklar hækkanir sem hafi orðið dragi úr frekari möguleikum til hækkunar auk þess sem útlit sé fyrir hægari hagvöxt á næstunni en verið hefur. Þá hafi ásett verð lækkað eða staðið í stað meðan framboð á húsnæði á sölu eykst, auk þess sem sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins taki í auknum mæli á móti fólksfjölgun.

Greiningardeild Arion banka ráðgerir auk þess í hagspá frá 8. nóvember að á þessu ári hækki íbúðaverð um 7,3%, 4,4% árið 2019 og 2,9% árið 2020. Spáin byggir á forsendum um laun, aðgengi að fjármagni, íbúðafjárfestingu og fleira og er því að sögn greiningardeildar umlukin talsverðri óvissu.

p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 0.0px 0.0px; font: 14.0px Calibri; color: #101010; background-color: #fff6f0} span.s1 {font-kerning: none} span.s2 {text-decoration: underline ; font-kerning: none; color: #1f5cb8}

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .