Ef það er hægt að nefna eitthvert eitt tiltekið hugðarefni fjárfesta sem enginn nær samkomulagi um þá er það spurningin um hvort fjárfestir geti unnið markaðinn samfellt og til lengdar. Bæði fræðimenn og fjárfestar hafa lengi deilt um þetta efni og í nýrri íslenskri bók er varpað ljósi á þetta álitamál.

Bókin Lesið í markaðinn – Eignastýring og leitin að bestu ávöxtun kemur út á næstu dögum. Landsbankinn stendur að útgáfunni í samvinnu við bókaútgáfuna Crymogeu. Bókin er eftir þau Svandísi R. Ríkarðsdóttur og Sigurð B. Stefánsson en þau hafa unnið við sjóðastýringu um árabil.

Spurð að því hver aðdragandi að útgáfu bókarinnar er segja þau að hann sé langur. Hugmyndin kviknaði árið 2009 en vinnan við bókina fór að mestu fram árin 2013 til 2015. „Við höfðum starfað saman við eignastýringu frá árinu 2004 og allan tímann velt fyrir okkur sérstaklega þeim aðferðum sem beitt er og hvers vegna þeim er beitt,“ segir Sigurður.

„Við vildum rannsaka hvernig aðferðir við fjárfestingu og eignastýringu urðu til og hvernig þær hafa þroskast og mótast allt frá því fyrir aldamótin 1900. Við komumst að raun um að fyrir meira en 100 árum var jafnan spurt tveggja spurninga, hvað skal kaupa og síðan hvenær skal kaupa. Gömlu meisturunum á Wall Street var þetta eðlislægt og tamt. Þegar líða tók á fimmta áratug 20. aldar fóru fræðimenn og hluti fjárfesta að spyrja að- eins hvað skal kaupa og ekki hvenær. Annar hópur lagði meiri áherslu á síðari spurninguna og þannig varð til klofningur milli helstu skóla í fjárfestingu og eignastýringu, skóla grunngreiningar og skóla tæknigreiningar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .