London Underground, sem rekur neðanjarðarlestirnar í Lundúnum, bjóða lestarstjórum 51.250 pund á ári frá og með næsta ári samkvæmt tilboði sem Bloomberg greinir frá. Þegar bónusar eru taldir með jafngildir tilboðið rúmlega 900 þúsund krónum á mánuði. Lestarstjórar í neðanjarðarlestunum fóru í verkfall í dag. Þeir eru óánægðir með að þurfa að vinna næturvaktir, en London Underground ætlar að opna næturþjónustu í næsta mánuði.

Strætisvagnabílstjórar í Bretlandi eru með um helmingi lakari laun heldur en lestarstjórunum bjóðast. Breskir kennarar eru með um 27.000 pund á ári, hjúkrunarfræðingar um 32.000 pund og lögreglustjórar með um 39.000 pund. Þessir hópar fá því umtalsvert lakari laun en það tilboð sem lestarstjórarnir í Lundúnum hafa á borðinu.

Meðallaun hagfræðinga og tölfræðinga í Bretlandi eru um 44.000 pund á ári eða um 750.000 krónur á mánuði. Það eru því lægri laun en lestarstjórunum bjóðast. Það sama á við um arkitekta.

Miklar tafir urðu á samgöngum í Lundúnum í dag vegna verkfallsins. 250 aukalegir strætisvagnar voru settir á göturnar og yfir 300 kílómetrar af bílaröðum mynduðust á götum borgarinnar, að sögn BBC .