Lestrarvika Arion banka í samstarfi við Disney-klúbbinn hófst í dag. Markmið Lestrarvikunnar er að hvetja börn á öllum aldri til að vera dugleg að lesa sér til fróðleiks og skemmtunar.


Börnin skrá lesturinn á vef Arion banka frá og með 20. október en ekki skiptir máli hvað er lesið. Skáldsögur, teiknimyndasögur, skólabækur, Andrés blöð eða annað skemmtilegt lesefni, allt telst með.

„Nöfn þeirra krakka sem taka þátt fara í pott og í lok vikunnar verða dregnir út yfir 100 þátttakendur sem fá vinning frá Disney-klúbbnum," segir í tilkynningu frá Arion banka.  „Auk þess verður dreginn út skemmtilegur vinningur á hverjum degi á meðan á Lestrarvikunni stendur. Lestrarhestur Arion banka verður jafnframt dreginn út í lok vikunnar og fær hann iPad í verðlaun, en verðlaunin verða veitt þann 31. október."

Þetta er í fjórða sinn sem Lestrarvika Arion banka er haldin í samstarfi við Disney-klúbbinn en hún var síðast haldin í byrjun árs og skráðu um 1.700 krakkar sig þá til leiks.