Lestur Viðskiptablaðsins mælist nú 12,16% og hefur ekki mælst meiri frá því mælingar á lestri blaðsins hófust á ný í júní árið 2011. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar Prentmiðlakönnunar Gallup sem birtar voru í dag.

Aðeins tveir prentmiðlar mælast með aukinn lestur á milli kannana, en auk Viðskiptablaðsins mælist Fréttablaðið með aukinn lestur. Viðskiptablaðið mældist með 11,65% lestur í mars en 12,16% í apríl. Þá mælist Fréttablaðið með 51,79% núna samanborið við 51,54% í mars.

Lestur annarra miðla dregst saman með DV í broddi fylkingar, en þar mælist lesturinn 7,4% samanborið við 8,4% í mars. Lestur á Fréttatímanum mælist 40,21% borið saman við 40,58% mánuði fyrr, og lestur Morgunblaðsins mælist 28,2% samanborið við 28,65%.