Fáar þjóðir kaupa meira af gulli en Indverjar, en þar er gull stöðutákn auk þess að vera tileinkað gyðjunni Lakshmi. Undanfarin tíu ár hafa þessi gullkaup færst mjög í aukana samfara aukinni velmegun á Indlandi. Fáir hafa þó gengið jafnlangt og Datta Phuge, sem nýlega lét smíða fyrir sig gullskyrtu að verðmæti um 30 milljóna króna. Í frétt BBC segir að hann hafi viljað vanda til verksins og lét því búa til gullþráð sem notaður var til að sauma skyrtuna. Brynjur indverskra konunga voru m.a. notaðar sem fyrirmyndir, en alls eru um þrjú kíló af gulli í flíkinni.

Phuge segir að það hafi alltaf verið draumur hans að eiga mikið af gulli. Fólk hafi mismunandi markmið í lífinu, sumir vilji eiga bifreiðar eins og Audi eða Benz, en hann hafi valið Gull. Ekki það að Phuge sé bílalaus, því hann á fimm stykki.

Phuge gengur ekki um í gullskyrtunni dags daglega, heldur dregur hann hana upp við sérstök tækifæri. Þá er hann venjulega með stóran lífvörð með sér til að tryggja að henni sé ekki stolið. Hann stundar lánastarfsemi í bænum Pimpri Chinchwad og gengur greinilega ágætlega því hann segir að á sex til átta mánaða fresti kaupi hann eitthvað nýtt úr gulli. Næst á listanum er farsími úr gulli eða hugsanlega gullskór. Eiginkona hans, sem vinnur fyrir hið opinbera, deilir áhugamálinu og hann segir að hún eigi um hálft tonn af gulli.

Í frétt BBC er rætt við gullsérfræðinginn Rajiv Mehta sem segir að um 18.000 tonn af fulli séu í Indlandi og þar af séu um tveir þriðju hlutar á dreifbýlli svæðum. Milljónir Indverja eiga ekki bankareikninga og er gull því leið til að spara fé án aðstoðar banka.