Ólafur Þór Jóelsson tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra kvikmyndahúsa Senu. Í starfi sínu mun hann stýra öllum daglegum rekstri kvikmyndahúsanna, stefnumótun og uppbyggingu á frekari afþreyingu, en hann verður einnig áfram rekstrarstjóri heildsölu fyrirtækisins. Að sögn Ólafs leggst nýja starfið vel í hann.

„Það eru mörg spennandi tækifæri sem liggja í því sem við erum að gera. Bæði hvað varðar þróun kvikmyndabransans sem og þá útvíkkun sem mun eiga sér stað á næsta leiti í okkar starfsemi. Við munum á næstunni útvíkka hluta starfsemi Smárabíós yfir á hluta af afþreyingarsvæði í Smáralind, þar sem Smáratívolí hefur verið rekið. Samhliða því ætlum við að bjóða upp á fjölbreyttara framboð á hópatilboðum og afmælistilboðum. Við viljum því sækja af meiri krafti inn á þann markað. Sena er lifandi og skemmtilegur vinnustaður sem hefur á að skipa reynslumiklu starfsfólki og margar skemmtilegar áskoranir framundan hjá fyrirtækinu. Ég hef starfað hjá Senu í ansi langan tíma, eða rúma tvo áratugi. Ég byrjaði sem verslunarstjóri í tölvuleikjabúðinni Megabúðin, sem var staðsett á Laugaveginum og Skífan rak á sínum tíma. Í gegnum árin hef ég svo verið að þvælast í hin og þessi störf innan fyrirtækisins."

Í frítíma sínum eyðir Ólafur flestum stundum  með verðandi eiginkonu sinni, Margréti Sif Hákonardóttur, en þau eiga þrjú börn. Ólafur segir að tölvuleikir og fótbolti séu sín helstu áhugamál, en Ólafi hefur einmitt í gegnum tíðina reglulega brugðið fyrir á sjónvarpsskjáum landsmanna í tölvuleikjaþættinum GameTíví.

„Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að gera þessa þætti, enda mikill tölvuleikjaáhugamaður. Ég hef verið annar umsjónarmanna þáttarins í tæp tuttugu ár. Á sínum tíma var þetta eitthvað sem mig langaði til að gera og ég hafði lofað sjálfum mér því að fara láta drauma mína rætast, þar sem ég hafði ekki alltaf gert það fram að því. Ég er mjög ánægður með að hafa stigið þetta skref og sé fyrir mér að vera í þessu á meðan ég og aðrir hafa gaman af."

„Ég fylgist einnig mikið með fótbolta og er grjótharður Tottenham aðdáandi. Frá því að ég byrjaði að halda með Tottenham hefur gengið yfirleitt ekki verið upp á marga fiska en undanfarin ár hefur gengið batnað til muna, sem er einstaklega ánægjulegt. Ég reyni að fara með nokkuð reglulegu millibili til Englands á Tottenham leiki og fór ég síðast á leik Tottenham gegn Real Madrid í Meistaradeildinni á síðasta tímabili, þar sem mínir menn unnu frækinn sigur. Ég er mjög spenntur fyrir því að fara á leik á nýjum heimavelli liðsins, sem á að verða opnaður á næstunni," segir Ólafur.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .