Þau voru hröð samskiptin við Benedikt Eyjólfsson, stofnanda og eiganda Bílabúðar Benna, þegar við mæltum okkur mót í höfuðstöðvum fyrirtækisins við Vagnhöfða í Reykjavík. Örfáum sekúndum eftir fyrstu kynni var ég óvænt sestur undir stýrið á rafbílnum Chevrolet Volt. Fyrir mann sem keyrir um á níu ára gamalli Corollu með lélegum felgum, biluðu pústi og ónýtu loftneti, þá var akstur lyklalausa, hljóðláta rafbílsins með bakkmyndavél ákveðin upplifun.

„Gefðu aðeins í,“ sagði Benni þegar ég dólaði á 25 kílómetra hraða niður Höfðabakkann. Án þess að finna fyrir því brunuðum við í örfáar sekúndur á 85 kílómetra hraða, hljóðlaust.

Tölvumynd í mælaborðinu sýndi orkunotkun bílsins og sagði að hálfur rafgeymir myndi duga í 25 kílómetra til viðbótar. Ef til vill var hraðinn, og þá sérstaklega hröðunin, ekki mikill fyrir bílablaðamenn og ökuþóra. En fyrir löghlýðinn viðskiptablaðamann var akstur rafbílsins skemmtilegur og öðruvísi, enda ók þar um maður sem hefur ekki hundsvit á ökutækjum.

Sannfæring um bjarta framtíð rafbílsins varð meiri en nokkru sinni. „Þetta gerist ekki á morgun, heldur á næstu fimm til fimmtán árum. Það er enn ákveðinn flöskuháls,“ segir Benedikt um þróunina og boðuð heimsyfirráð rafbílsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.