Lýsi skuldari, með neikvætt eigið fé og engar tekjur, því yfir að hann sé borgunarmaður kröfu, eftir að honum hefur verið birt áskorun um að greiða eða lýsa yfir því að hann geti greitt, eru þá skilyrði uppfyllt til að taka hann til gjaldþrotaskipta? Hafa ársreikningar, sem ekki hafa verið sendir Skattinum, sönnunargildi? Og hvað varð um peningana sem DataCell ehf. (DC) fékk frá Valitor? Þetta er meðal þess sem var undir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku þegar Reykvískir lögmenn slf., lögmannsstofa Sveins Andra Sveinssonar, krafðist þess að bú DC yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

„Það er þannig að þótt slíkt svar berist þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að kröfuhafi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta heldur kemur til sjálfstæðrar skoðunar hvort þetta sé fullnægjandi yfirlýsing. Það gengur ekkert að senda bara tölvupóst og segja „ég get borgað“, því verður að fylgja rökstuðningur,“ sagði Sveinn Andri.

Benti hann á að samkvæmt ársreikningi DC fyrir 2019, sem aðgengilegur er á vef Skattsins, þá geymi hann tekjur upp á 24 milljónir króna og eigið fé hafi verið neikvætt um 191 milljón króna. Enginn rekstur hafi verið í félaginu. Fyrir aðalmeðferðina var lagður fyrir dóminn endurgerður ársreikningur fyrir árið en það hafði vakið athygli að aðeins 24 milljónir króna hafi verið tekjufærðar þegar félaginu voru dæmdar 60 milljónir króna auk dráttarvaxta.

„Síðan kemur þessi leiðrétti ársreikningur sem hefur ekki verið samþykktur af ársreikningaskrá. Það er skemmst frá því að segja að sóknaraðili telur hann haldlausan,“ sagði Sveinn Andri. Í kjölfarið skaut dómari málsins því inn hvort hann vildi ekki fá þá yfirlýsingu prentaða á forsíðu Fréttablaðsins en sú hafði verið raunin í öðru máli, sama dag og þetta mál var flutt.

„Hér í nýja ársreikningum eru færðar tekjur upp á akkúrat 60 milljónir króna. Dráttarvextirnir sem féllu á kröfuna [frá apríl fram í júlí] eru ekki í reikningnum og vaxtatekjur eru átta krónur samkvæmt rekstrarreikningi,“ sagði Sveinn Andri.

„Einnig er merkilegt að sjá að rekstrargjöld, sem voru engin í fyrri reikningnum, eru allt í einu orðin 41 milljón króna vegna kostnaðar við dómsmál. Virðulegi dómur, þetta er fullkomlega ómarktækt plagg. Það verður verðugt verkefni fyrir einhvern glöggan skiptastjóra að finna út hvað átti sér stað hérna,“ sagði Sveinn. Yfirlýsing um að DC félagið gæti greitt kröfuna væri því að engu hafandi væri litið til opinberra skjala um fjárhagsástand þess.

Skilyrðið ekki uppfyllt

„Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í málsatvik, mótmæli lýsingu sóknaraðila aðeins að því marki sem hún samræmist ekki greinargerð varnaraðila. Þess í stað ætla ég að vinda mér strax í málsástæðurnar og leyfa mér að vera á aðeins fræðilegri nótum,“ sagði Jóhann Fannar Guðjónsson, lögmaður DC.

Umrædd heimild gjaldþrotaskiptalaganna kom inn í lögin árið 2010 og felur í sér umtalsvert hagræði. Kröfuhafa nægi að skora á skuldara að lýsa yfir greiðslugetu, ella séu löglíkur fyrir ógjaldfærni. Strangar kröfur eru gerðar til lánardrottins við beitingu ákvæðisins.

„Ef við skoðum skilyrðin sem þurfa að vera uppi þá þarf að minnsta kosti að vera uppi sú staða að skiptabeiðandi verður að eiga lögvarða kröfu. Sú er ekki raunin í þessu máli. Þá má skuldari ekki hafa orðið við áskoruninni, ef hann hefur gert það þá nær skiptabeiðni ekki fram að ganga. Svo einfalt er það,“ sagði Jóhann Fannar og reifaði nokkra dóma Hæstaréttar þar sem reynt hefur á ákvæðið.

„Svarbréf [DC] uppfyllir allar þessar kröfur. Í því kemur fram að krafa málsins sé fullkomlega umdeild en við skulum láta það liggja á milli hluta. Þá er gjaldfærni lýst yfir þannig að skilyrðið er ekki uppfyllt,“ sagði Jóhann Fannar. Framburður vitnisins, Ólafs Vignis Sigurvinssonar, um meinta stofnun umþrættrar kröfu, væri síðan að engu hafandi enda væri ljóst að mikil óvild væri milli hans og núverandi eiganda DC.

„Málatilbúnað gagnaðila míns mátti skilja þannig að ef skuldari kæmi bara með eitthvert svar þá ætti úrræðið ekki við. Það náttúrulega gengur ekki upp. Ef skuldari er með skrilljarða í neikvætt eigið fé og bullandi taprekstur þá dugar það ekki. Skuldari þarf að lýsa því yfir að efnahag hans sé ekki þannig komið að hann sé ógreiðslufær. Ef slík yfirlýsing er í fullkomnu ósamræmi við fyrirliggjandi gögn, þá er hún ófullnægjandi,“ sagði Sveinn Andri í andsvörum sínum. Dómari málsins spurði hann að því hvort það skilyrði væri að finna í lögunum eða greinargerð og svaraði að það væri ekki tekið sérstaklega fram. Það hlyti hins vegar að liggja í hlutarins eðli.

Dómarinn sló á létta strengi

Það er óhætt að fullyrða að aðalmeðferðin hafi verið með þeim léttari sem blaðamaður hefur setið. Milli málflutningsræðna Sveins Andra og Jóhanns Fannars stóð dómari málsins til að mynda fyrir léttri sögustund. „Ég vil minna á hina fornu þingreglu Héraðsdóms Reykjavíkur að sá lögmaður sem skemur talar, hann vinnur,“ sagði Ástráður Haraldsson. Rifjaði hann síðan upp sögu af Þorleifi Repp, þýðanda, bókasafnara og blaðamanni, og hvernig honum tókst að hlæja sig út úr doktorsvörn sinni við Edinborgarháskóla. „Ég vona að lögmaður varnaraðila sé betur settur en Þorleifur taki lögmaður sóknaraðila upp á því að trufla hann til að tryggja sér sigur,“ sagði Ástráður.

Milli andsvara lögmanna bað hann síðan sóknaraðila, það er Svein Andra, um að spritta púltið og bætti því við að vonandi myndi hann lifa þann dag að þessum faraldri linnti. Sveinn Andri samsinnti því og bætti við að bara ef sóttvarnaaðgerðir myndu bíta jafnvel á öðrum pestum „og eins og til dæmis Framsóknarmennsku.“ Hló þá dómarinn og bætti glettinn við að þá væri hagur samfélagsins sennilega betri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .