*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 13. apríl 2019 12:01

Létt verði á byrði námslána

Formaður VR segir námslánakerfið andsetið og refsandi en formaður BHM vill skattafrádrátt vegna afborgana lánanna.

Höskuldur Marselíusarson
Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður Bandalags háskólamanna.
Aðsend mynd

Forystumenn BHM og KÍ segja að ekki sé hægt að líta á svokallaða lífkjarasamninga sem grundvöll fyrir kröfu- og samningagerð sinna félaga. Þó opna þau fyrir fleiri áherslumál en launahækkanir eingöngu líkt og var gert í tilfelli þeirra samninga.

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna, segir of snemmt að segja til um hvort og að hve miklu leyti slíkar hugmyndir geti komið á móti kröfum um launahækkanir.

„Það hafa ekki komið nein tilboð á borðið frá viðsemjendum okkar, ríki og sveitarfélögunum, en það skiptir máli að kröfum okkar um að létta byrðina af afborgunum af námslánum verði svarað. Við höfum nefnt hugmyndir um skattafrádrátt í því samhengi,“ segir Þórunn sem leggur áherslu á að samningar opinberu félaganna séu sjálfstæðir.

„Við gerum okkur grein fyrir að niðurstaðan á almenna markaðnum skapar ákveðna umgjörð og þrýsting á lægstu laun, en hún er hins vegar ekki forskrift að samningum fyrir BHM hjá hinu opinbera. Það er ljóst í okkar huga að krónutöluhækkanir henta ekki okkar hópum, þær fara illa saman við kröfuna um að meta menntun til launa. Það verður að vera eðlilegur ávinningur af því að afla sér háskólamenntunar í landinu.“

Þórunn hefur trú á því að ríkið komi myndarlega til móts við félögin á sama hátt og það gerði við samningagerðina á almenna markaðnum. „Væntanlega verður þá ríkið tilbúið til að nálgast kröfur okkar, og á ég ekki von á öðru en að það komi að þessu borði af fullri alvöru með lausnir í farteskinu,“ segir Þórunn sem segir að sé kominn tími til að háskólamenn njóti eins og aðrir ávaxtanna af miklum efnahagsvexti síðustu ára.

„Það er einfaldlega þannig að háskólamenntaðir sérfræðingar hafa eytt drjúgum hluta lífsins í bæði að verða sér út um sína sérfræðiþekkingu og hafa oft til þess þurft að taka námslán og svo auðvitað greiða af þeim líka. Það er einfaldlega kominn tími til þess að Íslendingar horfist í augu við það að bókvitið þarf að láta í askana. Eina framtíðarsýnin sem eitthvert vit er í, er framtíð sem byggist á þekkingu.“

Andsetið og refsandi kerfi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það ekki vera kröfu félagsins að kjarasamningagerðin á opinbera markaðnum taki mið af samkomulagi á almenna markaðnum.

„Þau hafa talað um að menntun sé metin til launa, og er ég sammála því að ákveðnu leyti, en við erum með það sem ég veit ekki hvort eigi að kalla andsetið námslánafyrirkomulag, þar sem fólki er refsað fyrir að mennta sig,“ segir Ragnar Þór í VR.

„Það felast ákveðin tækifæri í því að breyta því að þeir sem þurfi að skuldsetja sig til að fara í háskólanám þurfi ekki vera í ævarandi skuldafangelsi fyrir að vilja skapa hér verðmæt störf og mennta sig og vinna í þessu góða landi okkar, Til dæmis með því að breyta lánunum að einhverju leyti í styrk.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.