Samskip eru að gera prófanir á nýrri umhverfisvænni lausn til raforkuframleiðslu fyrir flutningaskip. Auk Samskipa taka Efla, Héðinn, Faxaflóahafnir, Nýorka og Klappir og fleiri þátt í verkefninu.

„Þetta er bara hugmynd sem ég fékk þegar ég var 17 ára og var að rökræða við eðlisfræðikennarann minn,“ segir Óskar Svavarson. „Ég sagði við hann að heimurinn færi aftur á seglskipaöld og hann sagði að þetta væri nú eitt mesta rugl sem hann hafi heyrt því við myndum finna eins mikla olíu og við vildum í jörðinni, en áttaði sig kannski ekki á því að við þyrftum að gera eitthvað í þessum málum.“

Óskar hefur, ásamt eiginkonu sinni Maríu Kristínu Þrastardóttur, unnið undanfarin ár að þróun umhverfisvænnar lausnar fyrir flutningaskip, sem gengur út á það að koma vindtúrbínum fyrir í opnum gámum. Vindtúrbínurnar geta þá framleitt rafmagn um borð í skipum og nýta til þess þann hliðarvind sem annars færi til spillis úti á hafi.

„Það er búið að búa til tvær frumgerðir og búið að prófa þær í vindgöngum hjá Háskólanum í Reykjavík. Svo erum við tilbúin með smíðateikningar til þess að búa til frumgerðina.“

Sparar allt að 30 prósent

Hver túrbína getur framleitt svona 30 til 120 kílóvött en hægt er að vera með margar túrbínur um borð í hverju skipi. Óskar bendir á að stóru skipin frá Maersk geti verið með allt upp í 140 túrbínur en vel megi hafa 10 eða 15 slíkar um borð í íslensku flutningaskipunum. Talið er að með þessari aðferð megi framleiða 5 til 30 prósent af orkuþörf skipa.

„Ef þetta fær einhvern framgang þá er pælingin að þetta verði gert í endurunnum 40 feta gámum sem við sögum hliðarnar úr. Þá er líka hægt að flytja þetta á bílum til að hlaða inn á batterí úti í sveit. Það taka allir bílar 40 feta gáma.“

Frumgerðin verður úr blikki en þau eru komin með samstarfsaðila úti á Spáni sem mun búa þetta til úr endurunnu plasti.

„Þannig að við erum bæði að endurnýta gámana, því þegar gámar beyglast þá má ekki nota þá á skip, við tökum þá og getum sagað úr þeim. Svo verða plastflöskur frá Belgíu notaðar í að búa til spaðana. Það er framtíðarpælingin.“

  • Prófanir hafa verið gerðar um borð í Helgafelli. Aðsend mynd

Fyrstu prófanir

Samskip hófu nú í apríl prófanir á þessum búnaði um borð í Helgafelli og síðan verður farið yfir mælingarnar til að taka ákvarðanir um stærð á rafal og annað.

„Það er nóg af vindi þarna úti en það er bara spurning hversu stóran rafal við við þurfum á frumgerðina. En þetta er náttúrlega mjög einfaldur búnaður. Þetta er Savonius-hverfill sem við notum,“ segir Óskar og nefnir að einn kosturinn við þetta sé að fuglar verða óhultir, öfugt við stóru vindmyllurnar sem snúa risaspöðum í hringi.

„Þetta drepur ekki fugla, því þegar þetta er komið á ferð þá er hann ekkert að fljúga á spaðana. Fuglinn sér alltaf spaðana.“

Búið er að sækja um einkaleyfi og tryggja að aðrir geti ekki farið af stað með þróun á sams konar búnaði. Verkefnið hefur fengið styrk frá Evrópusambandinu og Tækniþróunarsjóði. Þegar vindmælingum um borð í Helgafelli lýkur verður hafist handa við að smíða frumgerð í fullri stærð hjá Héðni.

  • María Kristín Þrastardóttir og Óskar Svavarsson stofnendur Sidewind og Guðmundur Arnar Óskarsson forstöðumaður flutningastjórnunardeildar Samskipa og Þórunn Inga Ingjaldsdóttir forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. Aðsend mynd