Hlutabréfavísitölur tóku ágætlega við sér við opnun markaða á meginlandi Evrópu í morgun í kjölfar þess að álag á lántökukostnaða Ítala tók að lækka. Álagið á skuldabréf ítalska ríkisins til tíu ára rauf 7% múrinn í síðustu viku og sögðu sérfræðingar það auka líkurnar verulega á því að ríkisstjórnin fari á hnén og skríði til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir neyðaraðstoð. Þetta neyddust ríkisstjórnin Grikkja, Íra og Portúgala einmitt að gera þegar álagið á skuldir ríkjanna ruku upp í svipaðar hæðir.

Bloomberg-fréttastofan greinir frá því í dag að álagið á skuldir Ítala hafi lækkað eftir að Silvio Berlusconi steig frá fyrir eftirmanninum Mario Monti. Álagið er engu að síður hátt, það stendur í 6,78% á 10 ára ríkisskuldabréf.

Líklegt þykir að Mario Monti tilkynni um skipan nýrrar ríkisstjórnar sinnar í dag.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur hækkað um 0,61%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 1,09% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi farið upp um 0,98%.