Ársfundur Samáls, samtaka álframleiðenda, verður haldinn næstkomandi þriðjudag. „Við fjöllum um stöðu og framtíð áliðnaðarins með áherslu á hringrásina frá framleiðslu til fjölbreyttrar notkunar og endurvinnslu,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. „Samhliða efnum við til sýningar á stoðtækjum Össurar hf., en þar gegnir ál mikilvægu hlutverki sem sterkur og léttur málmur. Segja má að það létti fólki sporin.“ Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra flytur ávarp og „Sterkar stoðir“ verður yfirskrift erindis Ragnars Guðmundssonar stjórnarformanns Samáls og forstjóra Norðuráls, en þar fjallar hann um stöðu áliðnaðarins hér á landi, helstu tækifæri og áskoranir og framtíðarhorfur á heimsvísu.

Daniel Goodman, markaðsstjóri Alcoa í flugsamgöngum, kemur til landsins og heldur erindi undir yfirskriftinni: „Aerospace Aluminium – The Empire Strikes Back“. „Fyrir nokkrum árum var gengið út frá því að ál yrði ekki notað meira í farþegaflugi, þar sem koltrefjar virtust vera að ryðja því út af markaðnum,“ segir Pétur. „Þessar heimsendaspár gengu ekki eftir, þar sem áliðnaðurinn kom fram með nýjar lausnir, koltrefjar stóðu ekki undir væntingum og nú blasir við að ál verði uppistaðan í flugvélum til fyrirsjáanlegrar framtíðar.“

Fundurinn verður haldinn þann 28. apríl frá 8.30-10.