Það er ekki bara á Íslandi sem ríkisstjórnir segja af sér eftir fjármálakrísu og mótmæli því mið-hægri ríkisstjórn Ivars Godmanis, forsætisráðherra í Lettlandi sagði af sér í gær eftir mikla mótmæla- og ofbeldisöldu sem ríkt hefur í landinu síðustu daga í kjölfar fjármálakrísu.

Mótmælin byrjuðu af alvöru fyrir viku síðan en síðan þá hafa yfir 100 manns verið handteknir og um 40 manns fluttir á sjúkrahús, þarf af átta lögreglumenn að sögn Reuters fréttastofunnar.

Mótmælin hófust viku eftir að þingið hafnaði vantrausttillögu á ríkisstjórn Godmanis en það sem endanlega gerði út um ríkisstjórnina, að sögn Godmanis var þegar samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn neituðu að samþykkja þær efnahagstillögur sem hann hafði unnið að og ætlaði sér að kynna eftir helgi.

Valdis Zatlers, forseti Lettlands varð strax við beiðni Godmanis og ræddi í gær við aðra stjórnmálaleiðtoga um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þær umræður munu halda áfram eftir helgi.

Hagvöxtur árið 2006: 12% - árið 2009: -12%

Eins og áður segir hefur hin alþjóðlega fjármálakrísa komið illa við Lettlands og er búist við allt að 12% samdrætti á þessu ári og BBC greinir frá því að atvinnuleysi gæti vaxið um allt að 50% á næstu 6-7 mánuðum.

Þá bætir BBC því við að Lettland sé annað Evrópuríkið þar sem ríkisstjórn fer frá völdum í kjölfar efnahagshruns, næst á eftir Íslandi en stjórnarandstaðan í Lettlandi hefur krafist afsagnar ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur.

Þannig sagði  Mareks Seglins, leiðtogi Þjóðarflokksins í Lettlandi að aðeins með afsögn ríkisstjórnarinnar myndi traust almennings á stjórnvöldum aukast.   Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst hagkerfið saman um 10,5% milli ára sem er mesti samdráttur frá því að landið losnaði undan Sovétríkjunum og lýsti yfir sjálfstæði árið 1990.

Síðustu ár hefur hagkerfið, líkt og það íslenska, vaxið mjög hratt en hagvöxtur árið 2006 mældist til að mynda 12%.

Erlend fjármögnun > fasteignabóla > bankahrun > aðstoð IMF og ESB > mótmæli > afsögn ríkisstjórnar

Greiningaraðilar á vegum Reuters segja að það sem hafi orðið hagkerfinu að falli var mikil fjármögnun lettneskra banka, sem annars vegar fólst í lántökum og hins vegar í innistæðum erlendra aðila, sem síðan var notað til þess að fjármagna lán og fjárfestingar í Lettlandi.

Það kann ef til vill að hljóma kunnuglega fyrir Íslendingum en líkt og hér á landi hefur orðið mikil verðhækkun á fasteignamarkaði í Lettlandi síðustu 4 árin. Þegar húsnæðisverð fór að lækka um mitt síðasta ár fór lánstraust bankanna að dvína sem varð til þess að þeir komu að lokuðum dyrum þegar leita þurfti frekari fjármagns.

Það sem tók steininn úr var þegar Parax, næst stærsti banki landsins, hrundi eftir bankaáhlaup og lausafjárskorts en bankinn hefur nú verið þjóðnýttur.

Þá neyddist ríkisstjórn Lettlands til að fá 7,5 milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu í desember. Hluti af samkomulagi ríkisstjórnarinnvar við hina nýju lánveitendur var að hækka skatta og skera verulega niður í ríkisútgjöldum.