Leturprent, sem hefur sérhæft sig í stafrænni prentun og verið með aðsetur að Síðumúla 22 í Reykjavík, er nú að færa sig um set.

Eru flutningar þegar hafnir í mun stærra og hentugra húsnæði við Dugguvog 12 á horni Sæbrautar. Blasa nýju höfuðstöðvarnar við þegar ekið er norður Sæbraut rétt norðan við Elliðaárbrúna.

Burkni Aðalsteinsson framkvæmdastjóri segir að um sé að ræða 700 fermetra húsnæði á einu gólfi sem sé mun hentugra en það gamla sem var aðeins 450 fermetrar.

„Þá vorum við að fá nýja vél sem er önnur bókalínan okkur. Við fáum hana til að tryggja vinnsluöryggi og vera betur í stakk búin til að þjónusta skólana í haust. Við erum þegar byrjuð að flytja og ætlum að reyna að koma okkur þarna fyrir á 14 dögum.“

Burkni segir að það sem af er ári sé um 5% veltuaukning. „Mér sýnist það ætla að verða áfram enda fyrirtækin farin að leita eftir prentun á smærri einingum en áður.“