Hagnaður lögmannstofunnar Lex nam 194 milljónum króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 185 milljóna hagnað árið 2019. Félagið greiddi út 185 milljónir króna í arð, samanborið við 250 milljóna króna arðgreiðslu árið 2019. Lögmannsstofan færði niður eignarhlut sinn í innheimtufyrirtækinu Gjaldskilum ehf. að fullu. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur Lex drógust hins vegar saman um 3,7% og voru rúmlega 1,3 milljarðar króna. Rekstrargjöld lækkuðu um 6,8% og voru rétt undir einum milljarði, þar af voru laun og launatengd gjöld 706 milljónir króna. Alls störfuðu 45 að meðaltali hjá samstæðunni árið 2020, samanborið við 47 árið áður.

Dótturfélagið G.H. Sigurgeirsson ehf., sem sinnir vörumerkja- og einkaleyfisskráningu, skilaði tæplega 30 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 21 milljón árið áður. Tekjur dótturfélagsins jukust um 7,4% og námu 125 milljónum króna.

Eigið fé Lex samstæðunnar var um 231 milljónir og skuldir 465 milljónir króna í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 33,2%.

Örn Gunnarsson er framkvæmdastjóri Lex. Stærstu hluthafar lögmannsstofunnar eru þau Óskar Sigurðsson, Ólafur Finnbogi Haraldsson, Lilja Jónasdóttir, Guðmundur Ingi Sigurðsson, Garðar Víðir Gunnarsson, Eyvindur Sveinn Sólnes og Arnar Þór Stefánsson, með 8,89% hlut hver um sig.

Eignarhlutur í Gjaldskilum færður niður að fullu

Lögmannsstofan færði niður eignarhlut sinn að fullu í innheimtufyrirtækinu Gjaldskilum ehf., sem Lex á helmingshlut í á móti Juris, en bókfært virði eignarhlutarins var um 7,7 milljónir króna árslok 2019. Lögmannstofan lækkaði einnig kröfu sína á innheimtufyrirtækið um rúmlega 1,6 milljónir króna þar sem eigið fé Gjaldskila var orðið neikvætt.

Hlutdeild Lex í tapi innheimtufyrirtækisins var 9,3 milljónir króna og má því ætla að tap Gjaldskila hafi hlaupið á 18 milljónum króna. Gjaldskil var rekið með 1,4 milljóna króna tapi árið 2019 en skilaði 9,9 milljóna króna hagnaði árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 62,4 milljónir króna árið 2019, samanborið við 72 milljónir árið 2018.