*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 17. mars 2017 13:49

Leyfa innflutning lífrænna afurða

Lífrænar afurðir frá Noregi og Íslandi má frá og með morgundeginum aftur flytja inn til Evrópusambandsins og markaðssetja í samræmivið reglur ESB um lífræna framleiðslu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Lífrænar afurðir frá Noregi og Íslandi, að meðtöldum lífrænum norskum laxi, má frá og með morgundeginum aftur flytja inn til Evrópusambandsins og markaðssetja í samræmi við reglur ESB um lífræna framleiðslu. Þetta hefur verið ákveðið vegna innleiðingar viðeigandi reglugerða í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Þettta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandinu.

Lengi hefur verið beðið eftir ákvörðuninni sem sameiginlega EES-nefndin tekur í dag. Þar með lýkur 8 ára töf, á meðan lífrænir framleiðendur í Noregi og á Íslandi fylgdu úreldum reglum sem ekki áttu lengur við innan ESB. Í kjölfar innleiðingar þessarar ákvörðunar getur innflutningur lífræns lax frá EES-löndunum, sem framleiddur er og vottaður í samræmi við reglugerðir ESB, haldið áfram frá og með 18. mars 2017, segir í tilkynningunni.

Framkvæmdastjóri ESB á sviði landbúnaðar og byggðaþróunar, Phil Hogan, fagnaði ákvörðun dagsins: „Það gleður mig að sjá að félagar okkar innan EES gerðu sér grein fyrir mikilvægi sameiginlegra staðla, og ávinnings framleiðenda og neytenda af þeim beggja vegna borðsins. Reglurnar tryggja lífrænum framleiðendum innan ESB og EES jafnan samkeppnisgrundvöll, báðum til hagsbóta.

Framkvæmdastjórnin mun aldrei fallast á að útvatna þær ströngu kröfur sem við gerum til afurða sem eru framleiddar, fluttar inn og markaðssettar sem lífrænar. Það er hlutverk okkar að tryggja traust neytenda og trúverðugleika lífrænnar merkingar ESB“.

Evrópusambandið setti fyrst reglur um lífræna framleiðslu og merkingar árið 1991 en uppfærði þær árið 2007, að mörgu leyti með strangari viðmiðum. Síðar, árið 2009, voru kynntar til sögunnar viðbótarreglur um framleiðslu, ekki síst um lífrænt fiskeldi. Töf við innleiðingu nýju reglnanna innan EES-samningsins skapaði ósanngjarnar aðstæður fyrir framleiðendur og aðra aðila á markaðnum.

„Töfin þýddi að fiskeldisafurðir frá þessum löndum var ekki unnt að flytja inn og selja sem lífrænar innan ESB. Þetta hafði afleiðingar fyrir EES löndin, sem og fyrir innflytjendur og vinnslustöðvar innan ESB. Þetta var sér í lagi vegna reglna ESB um fiskeldi sem gilda um framleiðslu og vottun lífræns lax, og urðu ófrávíkjanlegar í janúar 2015.
Stofnanir EES töfðu innleiðingu nýju reglnanna vegna útistandandi beiðna um undanþágur frá ákveðnum tæknilegum atriðum, til dæmis um notkun fiskimjöls til fóðurs jórturdýra og um ákveðinn sveigjanleika við merkingar. Þessar beiðnir hafa nú verið dregnar til baka,“ er jafnframt tekið fram.

Stikkorð: ESB lax flytja lífrænar afurðir