Franska ríkið leyfir starfsmönnum að bíða með það að skoða þá tölvupósta sem að berast eftir að fólk hættir í vinnunni. Í nýjum lögum sem að tóku gildi í gær, getur fólk „aftengst“ vinnutölvupóstum eftir að það er komið heim. Frá þessu er greint í frétt CNN Money .

„Lögin eru sett á til þess að tryggja það að fólk virði hvíldartíma og jafnvægi á milli einkalífs og vinnu,“ segir í tilkynningu frá franska atvinnumálaráðuneytinu.

Nú þurfa frönsk fyrirtæki sem eru með yfir 50 manns í vinnu að komast að samkomulagi við starfsmenn sína um hvernig því væri háttað þegar starfsmenn fyrirtækisins yfirgefa vinnusvæðið.

Frönsk verkalýðsfélög hafa löngum barist fyrir því að starfsmenn geti „aftengst“ og hafa meðal annars fært rök fyrir því að vegna tölvupóstsamskipta vinni fólk lengur - og oftast utan vinnutíma.

Sum frönsk fyrirtæki hafa nú þegar innleitt nýjungina og þar á meðal hafa örfá lokað á tölvupóstkerfi fyrirtækisins næturlangt.