Kapítalismi virkar ekki nema að bönkum er leyft að verða gjaldþrota, segir aðstoðarbankastjóri Englandsbanka Paul Tucker. Hann segir að þrátt fyrir aðgerðir eftir fjármálakrísuna þurfi að bæta stöðu fjármálastofnana enn frekar. Þörf sé á fjármagni og að enginn banki ætti að vera talinn of stór til að falla.

„Ef við búum við kerfi þar sem bankar hagnast á góðæristímum en skattgreiðendur taka höggið þegar illa fer þá hefur eitthvað mistekist við kerfi kapítalisma. Það þarf að laga,“ segir Tucker í samtali við BBC. Kapítalísmi virki ekki nema fjármálastofnanir, sem liggja við rætur kerfisins, geti orðið gjaldþrota líkt og aðrir.

Að hans mati á fjármálastofnunum að vera skylt að halda um meira lausafé en alþjóðlegar reglur segja til um í dag. Þá geti þær frekar brugðist við ef tap verður af rekstri. Nauðsynlegt sé að nýjar reglur leiði til þess að kostnaður falli ekki á skattgreiðendur.

Í grein á BBC eru rifjuð upp orð Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, frá árinu 2009. Þar sagði King: „Ef talið er að einhverjir bankar séu of stórir til að verða gjaldþrota, þá...eru þeir of stórir.“