BaFin, bankaeftirlit Þýskalands, leyfði starfsfólki sínu að stunda viðskipti með hlutabréf fjártæknifyrirtækisins Wirecard á meðan rannsókn eftirlitsins á fyrirtækinu stóð yfir. Eftirlitið hefur legið undir gagnrýni fyrir að hafa horft framhjá rauðum flöggum um fyrirtækið í áratug. WSJ segir frá .

Á fyrstu sex mánuðum ársins voru 2,4% hlutabréfaviðskipta starfsmanna BaFin með hlutabréf eða afleiður Wirecard, samkvæmt skriflegu svari þýska fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn frá stjórnarandstöðunni. Sama hlutfall var um 1,7% á síðasta ári. BaFin hóf rannsókn á Wirecard vegna markaðsmisnotkunar í lok janúar 2019.

Bankaeftirlitið sagði að viðskipti starfsmannanna væru ekki óvenjuleg og að þeir hafi greint frá viðskiptunum ásamt því að fá leyfi frá sínum yfirmönnum. Um 20% starfsfólks BaFin stunduðu viðskipti með hlutabréf Wirecard árið 2019 og á fyrri helmingi 2020.

Eftirlitið sagðist þó ekki vita hvort starfsfólk sitt hafi skortselt hlutabréf Wirecard, þar sem starfsmönnum er ekki skylt að greina frá slíkum upplýsingum. Fjármálaeftirlitið hefur heldur ekki upplýsingar um viðskipti starfsmanna fyrir árið 2018 þar sem þýsk persónuverndarlög neyða BaFin að eyða þeim upplýsingum.

Wirecard var tekið til gjaldþrotaskipta í júní síðastliðnum eftir að fyrirtækið greindi frá því að 1,9 milljarðar evra , sem áttu að vera á geymslureikningum hjá erlendum dótturfélögum, væru líklegast ekki til. Markaðsvirði Wirecard, sem komst í Dax 30 vísitöluna árið 2018, hefur lækkað úr tæplega 13 milljörðum evra í 200 milljónir evra á rúmum tveimur mánuðum.

Evrópski seðlabankinn, sem hefur eftirlit eftir stærstu bönkunum á evrusvæðinu, bannaði sínu starfsfólki að eiga hlutabréf í Wirecard, þrátt fyrir að hann hefði ekki beint eftirlit á Wirecard, þar sem um fjármálafyrirtæki sem stofnað var innan Evrusvæðisins væri að ræða. Bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) bannar sínu starfsfólki að kaupa eða selja verðbréf sem gefin eru út af fyrirtæki sem er undir rannsókn þess.

Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands sem hefur umsjón með BaFin, hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna daga af stjórnarandstöðunni. Scholz hefur þó varið bankaeftirlitið og segir það hafa starfað innan síns umboðs. Tímasetning málsins kemur á slæmum tíma fyrir Scholz en hann var í síðustu viku valinn frambjóðandi Jafnaðarmannaflokksins fyrir kanslaraembættið í næstu kosningum.