Landsbankinn hefur fengið leyfi kanadískra yfirvalda til að reka útibú í Kanada, en bankinn hefur um hríð starfrækt umboðsskrifstofu bæði í Halifax og Winnipeg. Útibú Landsbankans í Kanada hefur nú heimild til þess að stunda bankastarfsemi, þar á meðal útlán og taka innlán frá fyrirtækjum, að því er fram kemur í tilkynningu bankans.


"Landsbankinn er fyrsti íslenski bankinn sem fær leyfi til að reka útibú í Kanada. Landsbankinn stofnaði skrifstofu í Halifax í nóvember 2005 og aðra í Winnipeg síðastliðið vor. Útibúið í Halifax mun veita þjónustu til fyrirtækja í Kanada, meðal annars sjávarútvegsfyrirtækja, þar sem sérþekking bankans skapar honum forskot í samkeppni. Á skrifstofu bankans í Winnipeg hefur verið lögð áhersla á einstaklingsþjónustu. Nú þegar hefur bankinn öðlast verðmæt tengsl í kanadískum viðskiptaheimi, sem munu nýtast enn betur nú þegar leyfi til reksturs útibús er fengið," segir í tilkynningunni.
"Við teljum mikil tækifæri felast í starfsemi í Kanada, enda er markaðurinn þar stór og hagkerfið þróað. Með bankaleyfi í höndunum getum við haldið sókn okkar á þessum markaði áfram af fullum krafti," segir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans.
"Landsbankinn hefur nú þegar byggt traustan grunn viðskiptamanna og stofnað til verðmætra tengsla sem við getum nýtt okkur í auknum mæli nú þegar öll leyfi eru í hendi. Það er ekki einfalt mál að fá slíkt leyfi hér í Kanada og þess vegna er þetta mikilvægur áfangi fyrir starfsemi okkar í þessum heimshluta," segir Ólafur Þorsteinsson, útibússtjóri Landsbankans í Kanada.