Stjórn Straums-Burðarás Fjárfestingabanka hf. hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu þar sem hefur verið dregið í efa að farið hafi verið að lögum er Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (Straumi) var veitt leyfi til að færa bókhald og semja ársreikning í evrum. Því mótmælir stjórnin.


Í tilkynningu hennar kemur fram að samkvæmt lögum um ársreikninga er ársreikningaskrá bær til að veita fyrirtækjum leyfi til færslu bókhalds í erlendum gjaldmiðli. "Með bréfi dagsettu 31. október 2006 sótti Straumur um slíkt leyfi til ársreikningaskrár. Erindið var meðal annars stutt þeim rökum að Straumur hefði verulegan hluta fjárfestinga sinna í erlendum fjárfestingarvörum og skuldir þeim tengdar í erlendum gjaldmiðlum. Leyfið var veitt með bréfi ársreikningaskrár dagsettu 5. desember 2006. Í bréfinu kemur meðal annars fram að bankinn uppfylli þau skilyrði sem talin eru í 8. gr. laga um ársreikninga. Á grundvelli leyfisins tók stjórn Straums á fundi í desember 2006 ákvörðun um að færa bókhald og semja ársreikning í evrum frá 1. janúar 2007 að telja," segir í tilkynningunni.

- Og bætt er við: "Með vísan til framanritaðs er engum vafa undirorpið að Straumur hefur að öllu leyti fylgt réttum lögum við ákvörðun um að færa bókhald og semja ársreikning í evrum. Við Straum verður ekki sakast þótt skiptar skoðanir séu innan stjórnkerfisins um túlkun laga um ársreikninga og stjórnsýsluframkvæmd ársreikningaskrár. Sá ágreiningur er bankanum óviðkomandi enda er leyfisveiting ársreikningaskrár ívilnandi og verður ekki afturkölluð. Er þess óskað að stjórnvöld haldi framvegis nafni Straums utan við opinbera umfjöllun um þetta efni."