Veitumenn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hafa lagst gegn því að borginni verði leigður einn af sex hitaveitutönkum Perlunnar undir náttúruminjasafn. Í minnisblaði sem þeir skrifuðu Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, og stjórnarformanninum Haraldi Flosa Tryggvasonar, kemur fram að nýta þurfi alla tankana til að tryggja afhendingu á heitu vatni á komandi árum, ekki síst þegar byggð þéttist í vesturhluta borgarinnar og nýr spítali rís þar. Minnisblaðið heitir „Sala Perlunnar og þörf OR fyrir tankarými frá 2013-2023“. Í þessum sjötta tanki hefur verið sögusýning um nokkurra ára skeið.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, komst að tilvist minnisblaðsins 7. desember síðastliðinn. Hann krafðist þess  svo á stjórnarfundi OR fyrir viku að fá að sjá minnisblaðið. Það gekk ekki eftir en ákveðið var að afhenda stjórn OR það í trúnaði og hefur leynd hvílt yfir því.

Í framhaldinu skrifaði forstjóri OR annað minnisblað sem leynd hvílir ekki á. Þar kemur fram að tankarnir fimm nýtist OR og sé í stuttu máli sagt óhætt að leigja sjötta tankinn enda afhendingaröryggið í lagi. Ákveðið var á fundinum að forstjóri OR fengi heimild til að selja Perluna til Reykjavíkurborgar en leigði þennan eina tank sem um ræðir undir náttúruminjasafn.

Kjartan las minnisblaðið sem trúnaður hvílir á á staðnum og komst að þeirri niðustöðu að hann þyrfti lengri tíma til að taka ákvörðun í málinu. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG í stjórn OR, var sama sinnis.

„Ég hef ítrekað óskað eftir því við forstjóra og stjórnarformann Orkuveitunnar að trúnaði verði aflétt af minnisblaðinu með vísan til þess að í því er að finna mikilvægar upplýsingar um ríka almannahagsmuni, þ.e. afhendingaröryggi hitaveitu í vesturhluta Reykjavíkur. Þessum óskum mínum hefur hins vegar verið hafnað,“ segir hann. Kjartan sat hjá við afgreiðslu málsins í stjórn OR og lagði fram bókun um málið á stjórnarfundi í gær. Sama dag var samþykkt í borgarstjórn að borgin kaupi Perluna á 950 milljónir króna.

Bókun Kjartans er svohljóðandi:

,,Í greinargerð með þeirri tillögu, sem nú hefur verið samþykkt, segir að samhliða kaupsamningi verði jafnframt gerður tíu ára leigusamningur vegna eins hitaveitugeymis. Ef fyrirætlanir um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar, t.d. með byggingu nýs Landspítala, verða að veruleika verður það æskilegt ef ekki óhjákvæmilegt í þágu afhendingaröryggis hitaveitunnar, að taka umræddan geymi í notkun fyrir framrásarvatn. Einnig þarf að hafa í huga mikilvægt hlutverk hitaveitugeymanna þegar alvarlegar bilanir verða í kerfinu en líklegt er að slíkum bilunum fjölgi í ljósi þess að ákveðið hefur verið að endurnýjun og viðhald kerfisins verði í algeru lágmarki á næstu árum. [...]. Flest bendir því til að út frá afhendingaröryggi hitaveitu sé óábyrgt að leigja umræddan geymi."