Fyrir tæpum mánuði mokaði hakkarahópur tæpum 38 Gb af gögnum, sem hann hafði hirt, nánast af glámbekk, hjá fyrirtækinu Avid Life Media, sem rekur framhjáhaldsvefinn Ashley Madison og skyldar þjónustur. Þetta er gríðarlegt gagnamagn.

Af gögnunum mátti ráða eitt og annað um fyrirtækið, en lausatök reyndust vera á fleiru en gagnaöryggi. Dulkóðun lykilorða reyndist þannig hlálega léleg, útseld vinna við eyðingu notendaupplýsinga reyndist ekki hafa átt sér stað, en eins hefur vakið athygli að fyrirtækið hafði fjölda fólks á launaskrá við að skálda notendaupplýsingar um gervikonur, svo það virtist vera sægur kvenna þar á vefnum í leit að ævintýrum utan hjónasængur. Ekki liggur fyrir hvort þær blekkingar stangast á við lög, en það hefur litla athygli fengið hjá hinu, að notendaupplýsingar um 37 milljóna notenda voru þarna opinberaðar, en þar á meðal fylgdu netföng, heimilisföng, upplýsingar um vinnuveitendur, eftir atvikum viðskiptasaga og fleira, eins og m.a. hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum.

Afleiðingarnar af lekanum hafa verið miklar, þegar upp hefur komist um strákana Tuma víða um veröld, bæði heima fyrir, á vinnustöð- um og jafnvel í fjölmiðlum, nú þegar eru allnokkrar hópmálsóknir gegn fyrirtækinu í bígerð, fregnir hafa borist af fjárkúgunartilraunum vegna þessa, en afdrifaríkast er vitaskuld að allnokkrir hafa sálgað sér í smán og örvæntingu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .