*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 21. ágúst 2011 14:11

Leyndarmálið og snillingurinn í kjötborðinu

Útgefendur búa sig undir haustið. Eyfirðingar eignast sína útgáfu af J.K. Rowlings; Elí Freysson tæplega þrítugan Akureyring.

Hrafn Jökulsson
Aðsend mynd

Við horfum glaðbeitt fram á spennandi haust. Við verðum með marga spennandi titla,“ segir Tómas Hermannsson hjá Sögum útgáfu. Íslensk útgáfufyrirtæki hafa löngum siglt krappan sjó, og markaðurinn einkennist af miklum hræringum þar sem fyrirtæki koma og fara. Sögur útgáfa varð til árið 2005, og hefur síðan vaxið ár frá ári. Tómas segir fjölbreytni einkenna útgáfulistann í ár, og nefnir fyrst til sögunnar nýjan rithöfund sem sendir frá sér fantasíuna Meistari hinna blindu. „Elí Freysson er tæplega þrítugur Akureyringur sem hefur setið við skriftir í 10 ár. Hann hefur klárað handrit að þremur skáldsögum og er byrjaður á þeirri fjórðu. Þetta eru harðkjarna fantasíur í anda Tolkiens, en Elí fer sínar eigin leiðir, svo úr verður undraverð blanda ævintýra og spennu,“ segir Tómas.

Elí Freysson vinnur í kjötborðinu hjá Nettó, þegar hann er ekki að setja saman sögur. Eru Eyfirðingar að eignast sína útgáfu af J.K. Rowlings – einstæðu móðurinni í Skotlandi sem fór að skrifa, svo úr varð Harry Potter? „Ég hef tröllatrú á Elí, og fólk sem hefur lesið handritin hans er dolfallið, hvort sem það er hrifið af fantasíum eða ekki. Okkur finnst frábært að hafa uppgötvað snillinginn í kjötborðinu,“ segir Tómas.

Krónprinsinn á söguslóðum

Óttar M. Norðfjörð hefur á síðustu árum skapað sér nafn sem einhver efnilegasti spennubókarhöfundur okkar, og nú sendir hann frá sér Leyndarmálið. Þar fer tveimur sögum fram: Önnur gerist á Íslandi samtímans, þar sem leynilegt stríð geisar um mikilvægar upplýsingar, hin færir okkur aftur til ársins 1972 þegar Robert James Fischer og Boris Spassky tókust á um heimsmeistaratitilinn í skák í Laugardalshöll. „Bækur eftir Óttar komu út á Spáni og Þýskalandi nú í vor og sumar. Vegur hans fer stöðugt vaxandi, og mér finnst hann verða betri með hverri bók sem hann skrifar. Ef Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir eru kóngurinn og drottningin í íslenskum spennubókmenntum þá er Óttar tvímælalaust krónprinsinn.“

1001 þjóðleið Jónasar og Stuð, stuð, stuð dr. Gunna

Tómas segir að umfangsmesti prentgripurinn hjá Sögum útgáfu sé Þúsund og ein þjóðleið eftir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóra. „Jónas hefur áratugum saman safnað og skrásett þær þjóðleiðir sem bókin geymir. Leiðarlýsingar má rekja til Sturlungu, dönsku herforingjaráðskortanna, munnlegra heimilda og Árbóka Ferðafélags Íslands, svo nokkuð sé nefnt. Þessi bók á eftir að marka kaflaskil í leiðsögn um landið okkar,“ segir Tómas, en leiðunum er lýst í máli og myndum, og þær sýndar á kortum, auk þess sem geisladiskur með GPS upplýsingum um allar leiðir fylgir bókinni.

Ekki minni metnaður er á bak við bók dr. Gunna, STUÐ, STUÐ, STUÐ – Íslensk dægurtónlist 1950-2010. „Bókin fjallar um íslenska dægurtónlist undanfarinna áratuga í máli og myndum. Það er sagt frá frumkvöðlunum sem settu tóninn á 6. áratugnum og sagan rakin til dagsins í dag. Þetta verður ómissandi gripur fyrir alla unnendur dægurtónlistar á Íslandi.“