Í mótmælum gegn lögreglu í Dallas í Bandaríkjunum voru fimm lögreglumenn skotnir til bana og sex til viðbótar særðar af leyniskyttum.

Leyniskyttur eins og í fyrirsát

Tvær leyniskyttur skutu lögreglumenn í mótmælum undir yfirskriftinni Black lives matters, eða svört líf skipta máli, en mótmælin brutust út í kjölfar þess að þónokkrir hafa látið lífið af hendi lögreglu meðal annars í Brooklyn, Baton Rouge og St. Paul undanfarna viku.

Virðist um samantekin ráð fjögurra einstaklinga vera að ræða, þar sem tveir komu sér fyrir með góða yfirsýn og skutu á lögreglumenn. Byrjaði skotríðin um 8:45 að staðartíma þegar miðbærinn var fullur af fólki og lýsti lögreglustjórinn David Brown því að um fyrirsát hefði verið að ræða.

Skotbardagi í bílageymslu

Þrír grunaðir voru handteknir, tveir karlmenn og ein kona, en sá fjórði kom sér fyrir á annarri hæð bílageymslu og skiptist á skotum við lögreglu langt fram eftir nótt. Sagði lögregluvarðstjórinn að hann hefði sagt við lögregluna að „endirinn væri að koma“ og hann hótaði að hann myndi „særa og drepa“ fleiri lögreglumenn.

Hann sagðist einnig hafa komið fyrir sprengjum um allan miðbæinn. Grunsamlegur pakki fannst eftir handtöku kvenmannsins, og var sprengjudeild send til að athuga með pakkann.

Leit út eins og aftaka

Einn sjónarvottur, Ismael DeJesus sagðist hafa séð byssumann stoppa við skólann El Centro College á jeppa og skjóta lögreglumann.

„Þetta leit út eins og aftaka. Hann stóð yfir honum þegar hann lá niðri og skaut hann kannski þrisvar eða fjórum sinnum til viðbótar í bakið,“ sagði hann í viðtali við CNN.