*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 6. febrúar 2020 18:02

Leyniuppskriftin að ofurteymi

Mannauðs- og stefnumótunarstjóri Taktikal heldur erindi um mannauðsmál á UTmessunni á morgun.

Júlíus Þór Halldórsson
„Maður hefði ekki getað fengið betri skóla,“ segir Ingibjörg um starfið hjá Spotify.
Gígja Einars

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir heldur erindi á upplýsingatækniráðstefnunni UTmessunni undir yfirskriftinni The secret sauce in how to successfully create a high-performing team eða Leyniuppskriftin að ofurteymi eins og hún íslenskar það, en fyrirlesturinn verður á ensku.

Ingibjörg tók nýlega við sem yfirmaður mannauðsmála og stefnumótunar hjá hugbúnaðar- og sprotafyrirtækinu Taktikal, en vann áður hjá Spotify í Svíþjóð í fjögur ár, fyrst sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra vöruþróunarsviðs, en síðar sem verkefnastjóri á mannauðssviði.

Ráðstefnan er haldin á vegum Skýs, félags starfsfólks á sviði upplýsingatækni, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Dagskráin verður á léttari nótunum á laugardeginum, og öllum opin sem vilja kynna sér það nýjasta á sviði upplýsingatækni.

Mikilvægt að geta tjáð sig opinskátt
„Erindið varðar í raun markmið allra vinnustaða: að vera með teymi sem skila sem mestri og bestri vinnu af sér. Lykillinn er sá – sérstaklega á sviði nýsköpunar og tækni – að ráða sem hæfast starfsfólk,“ segir Ingibjörg. Rannsóknir á stórum vinnustöðum hafi komist að þeirri niðurstöðu að margir telji sig ekki hafa öryggi til að tjá sig opinskátt á sínum vinnustað. „Þetta á jafnt við um hluti sem viðkomandi veit lítið um og hluti sem hann er sérfróður um.“

Hún segir inntak fyrirlestrarins að kynna hugtakið sálfræðilegt öryggi (e. psychological safety). „Þá erum við kannski minna að hugsa um hluti á borð við einelti og kynferðisofbeldi – eins alvarlegir málaflokkar og þeir eru – heldur hversdagslegri grundvallarhluti eins og að geta spurt spurninga, verið ósammála öðrum eða sagt frá hugmyndum sínum. Nauðsynlega þætti til að geta skapað þau verðmæti sem við þurfum í þekkingarhagkerfi nútímans.“

Mikið tapist á vinnustaðamenningu sem líti gagnrýnar spurningar hornauga. „Ég mun reyna að gefa stjórnendum og öðrum áheyrendum tæki og tól til að stuðla að sálfræðilegu öryggi á vinnustaðnum, til að hægt sé að virkja alla þá þekkingu og kunnáttu sem starfsmenn búa yfir.“

Ingibjörg segir ekki síður mikilvægt að fyrirtæki móti og kynni skýra stefnu. „Það er fyrir öllu að tjá starfsfólkinu hvert markmiðið er og hvernig því skuli náð, hvert svo sem það nákvæmlega er. Fyrirtæki hafa verið svolítið feimin við að setja sér háleit markmið og deila þeim með starfsfólki.“