*

fimmtudagur, 22. október 2020
Frjáls verslun 28. mars 2020 19:01

Íslendingur háttsettur hjá Vivino

Birkir Barkarson hefur starfað í sjö ár hjá Vivino, sem er stærsti starfrænni miðillinn í vinheiminum.

Ástgeir Ólafsson
Aðsend mynd

Margir vínunnendur kannast eflaust við smáforritið Vivino sem gerir notendum kleift að fræðast um vín með því að skanna miðann framan á flöskunni með símanum og í kjölfarið birtast hinar ýmsu upplýsingar um vínið ásamt gæðaeinkunn frá öðrum notendum. Á þann hátt hjálpar forritið notendum að velja viðeig- andi vín og bera saman þá möguleika sem þeir velta fyrir sér. Þá bíður appið einnig upp á að skanna vín- lista á veitingastöðum til að auðvelda notandanum val á víni. Tekjumódel Vivino byggir svo á markaðstorgi (e. marketplace) sem er stærsta sinnar tegundar í heiminum. 

Tæplega áratugur er síðan Vivino birtist fyrst í App Store hjá Apple en í nóvember síðastliðnum náði fyrirtækið þeim merka áfanga að milljarðasta flaskan var skönnuð. Nú fjórum mánuðum seinna hefur rúmlega 1,14 milljarður flaskna verið skannaður en tegundirnar eru 11,9 milljónir talsins frá um 225 þúsund vínframleiðendum. 

Notendur Vivino eru orðnir rúmlega 42,5 milljónir og fjölgar um rúmlega hálfa milljón í hverjum mánuði. Þeir hafa gefið 154,7 milljónum flaskna einkunnir og skrifað umsögn um 53,4 milljónir þeirra. Í dag starfa um 130 manns hjá fyrirtækinu sem er með starfsstöðvar í fimm löndum. Þess má geta að af 42,5 milljónum notenda Vivino eru skráðir notendur á Íslandi um 35 þúsund talsins. 

Fyrirtækið var stofnað árið 2010 í Kaupmannahöfn af þeim Heini Zachariassen og Theis Søndergaard. Í færslu á LinkedIn síðu sinni frá því í nóvember síðastliðnum segir Heini að hugmyndin að vörunni hafi kviknað ári áður þegar hann áttaði sig á því, við val á víni fyrir matarboð, að víniðnaðurinn ætti við vanda að stríða sem fólst í því að erfitt væri fyrir hinn venjulega neytenda að vita hvaða vín væru góð og hver ekki. Því fóru þeir félagar, sem að eigin sögn eru engir vínsérfræðingar, í það verkefni að skapa smá- forrit fyrir vín fyrir hinn venjulega neytanda. 

Þegar saga Vivino er skoðuð með því að líta á gögn yfir skannaðar flöskur sem Heini birti á LinkedIn síðu sinni á dögunum má sjá að vaxtasaga fyrirtækis- ins að því að verða stærsta vínsamfélagið og versl- unin með vín á netinu hefur ekki átt sér stað á einni nóttu. Eins og áður segir leit Vivino fyrst dagsins ljóst árið 2011 en það var ekki fyrr en fimm árum seinna sem flaska númer 100.000.000 var skönnuð en síðan þá hefur fjöldinn vaxið í nær veldisvexti. Í byrjun árs 2018 voru þær orðnar um hálfur milljarður og náðu svo milljarði í nóvember á síðasta ári. Það er hins vegar til marks um að velgengni tekur tíma að á meðan það tók fimm ár að ná 100 milljónum flaskna tók það aðeins tvo mánuði fyrir fyrirtækið að fara úr 1 milljarði í 1,1 milljarð. 

Íslenskur tæknistjóri

Einn af þeim sem komið hafa að gerð þessa gagnagrunns er Íslendingurinn Birkir A. Barkarson en hann hefur starfað hjá Vivino frá árinu 2013 og þar af síðustu þrjú ár sem tæknistjóri þess (e. CTO). Áður en Birkir gekk til liðs við Vivino starfaði hann í Tókýó í Japan en hann segir að áhugi á vínum og leit að almennilegu vínappi hafi orðið til þess að leiðir hans og Vivino lágu saman.

„Ég hafði í nokkur ár haft mikinn áhuga á vínum og var að nota mikið af öppum til að reyna að fylgjast með því hvað maður væri að drekka en fannst að gera mætti hlutina betur þar sem flest öppin voru góð í sumu en ekki öllu. Einn daginn fann ég svo Vivino og fannst þar komið app með alla þá eiginleika sem þurfti til. Í framhaldinu las ég viðtal við Heini þar sem hann lýsti því að hann vildi skapa einskonar IMDB fyrir vín en það var akkúrat sú hugsun sem ég hafði verið með og fannst þarna kominn einhver sem var að stela hugmyndinni,“ segir Birkir

„Á þessum tíma var Vivino enn frekar gróft app en hugmyndin var það sterk að mér fannst það hafa það sem þurfti til, en það varð til þess að ég setti mig í samband við stofnendurna, sagði að mér litist vel á appið en sæi að það væri margt sem mætti betur fara og spurði hvort þá vantaði ekki fólk. Þetta var rétt fyrir jólin 2012. Theis hafði svo samband og vildi ræða við mig.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér.

Stikkorð: Vivino