"Við vinnum að lausn á okkar málum í samvinnu við kröfuhafa félagsins sem eru Deutsche Bank að langstærstum hluta og síðan eigandinn, Exista," segir Halldór Jörgensson, forstjóri fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar. Dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána í krónum hefur mikil áhrif á fjárhag félagsins.

Lýsing er fjármögnuð að stærstum hluta af Deutsche Bank. Sambankalán sem Exista tók árið 2007 var síðan að hluta endurlánað til Lýsingar og er því hluti skulda Lýsingar við það félag, sem jafnframt er eigandi Lýsingar. Halldór segir að Lýsing hafi teiknað upp sviðsmyndir af því hvaða áhrif ákveðnir samningsvextir geta haft á fjárhag félagsins. "Það er um margt erfitt að segja hvaða áhrif dómurinn hefur á eiginfjárstöðu félagsins. Það er gífurlega mikill munur á t.d. samningsvöxtum annars vegar og síðan lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands hins vegar. Niðurstaðan varðandi vextina mun skipta sköpum um hvernig verður greitt úr málum viðskiptavina."

Útlán Lýsingar eru í kringum 75 milljarðar í krónum talið en skuldbindingar fyrirtækisins eru að miklu leyti í erlendri mynt. Niðurfærsla eigna, upp á 40 til 60%, mun því hafa mikil áhrif á efnahaginn. Halldór segir það ljóst, frá bæjardyrum Lýsingar, að ekki verði leyst úr stöðu félagsins nema með aðkomu kröfuhafa félagsins. "Það sem öllu skiptir í þessum aðstæðum er að reyna að greiða úr þessum málum með kröfuhöfunum. Það er það sem okkur ber að gera og er að öllu leyti farsælast."

Meðal þess sem til greina kemur er að Deutsche Bank umbreyti skuldum sínum í hlutafé og taki þannig yfir félagið að stærstum hluta. Þannig minnka skuldirnar og eiginfjárhlutfallið yrði þá yfir mörkum FME. Halldór vildi þó ekkert tjá sig um hvað væri líklegast að myndi gerast í stöðunni. "Það er svo sem ekki víst að kröfuhafarnir hafi áhuga á því að leysa úr stöðunni með því að umbreyta skuldum í hlutafé en það verður bara að koma í ljós hvað verður ofan á. Aðalatriðið er að kröfuhafarnir séu hafðir með í ráðum og það er það sem við leggjum áherslu á."

- Sjá nánar í Viðskiptablaðinu