*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 16:18

Lægra verð fyrir viðskiptavini Símans á farsímaþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu

Ritstjórn

Síminn hefur samið við farsímafyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) um að Síminn fái notið sömu kjara og aðildarríki innan Evrópusambandsins og EFTA hafa á verðskrá fyrir farsímaþjónustu. Þetta hefur í för með sér að Síminn getur frá og með 1. janúar 2008 boðið sínum viðskiptavinum sem staddir eru í löndum innan EES mun lægra verð en áður hefur verið mögulegt. 

Í tilkynningu vegna samningsins segir að forsendan fyrir þessari lækkun felst í því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins  samþykkti síðastliðið haust reglugerð sem kveður á um ákveðið hámarksverð á farsímamínútum í heildsölu á milli farsímafyrirtækja og á smásöluverði til neytenda. Þessi reglugerð nær til allra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta hefur það í för með sér að verðskrá Símans fyrir farsímasímtöl í 35 löndum í Evrópu lækkar umtalsvert og verður frá og með 1. janúar 51kr. fyrir mínútuna.  Hlutfallsleg verðlækkun er frá 36% til allt að 70% eftir því hvaða lönd eru höfð til viðmiðunar.

Það er Símanum mikið kappsmál að bjóða viðskiptavinum sínum upp á trausta og áreiðanlega þjónustu á góðum kjörum og því er þessi niðurstaða ánægjuefni fyrir Símann og til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins, eins og segir í tilkynningunni.