Samkvæmt nýrri hagvaxtarspá fyrir Evrópusambandið mun verg landsframleiðsla vaxa um 1,6% á þessu ári en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir 2% aukningu. Hins vegar er gert ráð fyrir í spánni að hagvöxtur muni taka kipp á næsta ári og vera í kringum 2,3%. Órói á olíumörkuðum og sterk evra munu, samkvæmt spánni, vera helstu dragbítar á hagvöxt á þessu ári. Ljóst er að heimsmarkaðsverð á hráolíu er að nálgast 60$ og virðist mikill eftirspurnarþrýstingur vera til staðar á heimsmarkaði segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þessi mikla hækkun olíuverðs á sér stað þrátt fyrir að OPEC-ríkin hafi aukið framleiðslu um 500.000 tunnur í byrjun mars síðastliðnum. Hátt gengi evrunnar hefur einnig komið verulega við kaunin á útflutningsgreinunum sem dregið hefur hagvaxtargetu evruhagkerfisins á þessu ári, að öðru óbreyttu. Ef litið er til Bandaríkjanna hljóða hagvaxtarspár upp 3,6-3% hagvöxt á þessu ári, en hins vegar 1,1-1,7% í Japan.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.