„Ég held að það sé mjög mikilvægt að Seðlabankinn lækki vexti.”

Fjölmargir hafa látið ummæli af þessu tagi falla undanfarnar vikur og mánuði en það vekur sérstaka athygli þegar sá sem talar er dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Viðskiptablaðið fékk hann til að ræða stöðu efnahagsmála heima og erlendis og hitti hann í gærmorgun á skrifstofu Hagfræðistofnunar á þriðju hæð í Odda.

Gunnar er fertugur, doktor í hagfræði frá háskólanum í Toulouse í Frakklandi og tók við starfi forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í janúar á síðasta ári.

Kenningar og kennslubækur lagðar til hliðar

Við byrjum að ræða fréttirnar af alþjóðlegum fjármálamarkaði og því umróti sem þar ríkir. Gunnar segir erfitt að bera ástandið saman við fyrri kreppur en segir aðgerðir Bandaríkjastjórnar til þess að draga úr áfallinu athyglisverðar. „Þetta er real-pólitík,“ segir hann. „Menn eru búnir að leggja einföldu kenningarnar og kennslubækurnar til hliðar. Það er einfaldlega þannig að menn eru að beita öllum þeim ráðum sem þeim detta í hug til þess að halda kerfinu gangandi – koma í veg fyrir að kerfið hrynji.“

Gunnar segir að þótt auðvelt sé að vera vitur eftir á hafi flestir, sem horft hafa á alþjóðlega markaði undanfarin tíu ár eða svo, talið að þörf væri á leiðréttingum. Enginn hafi þó búist við jafnmiklum og hröðum umskiptum og orðið hafa. “Á svona tímum gleðjast hagfræðingar yfir því að fá það staðfest að hagfræðilögmálin gilda þrátt fyrir allt og peningar verða ekki búnir til úr engu,” segir hann.

„Sumir vilja telja að það hafi verið of mikið lausafé á mörkuðum, of mikið lánsfé og margir hafi hegðað sér með óábyrgum hætti. Ástæðurnar megi að hluta til rekja aftur til 1989 þegar Long Term Capital Manage- ment Fund var bjargað. Sú aðgerð hafi sett mönnum slæmt fordæmi. _________________________________________

Nánar er rætt við Gunnar Haraldsson í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .