Samkvæmt Morgunkorni Glitnis náði Bandaríkjadollar í morgun sínu lægsta gildi gagnvart evru frá því síðarnefndi gjaldmiðillinn kom til sögunnar. Evran fór tímabundið í 1,453 dollara í morgun en gengiskrossinn hefur lækkað lítilsháttar síðan. Gagnvart flestum helstu gjaldmiðlum öðrum er gengi dollarans einnig lægra en verið hefur um langa hríð. Gengi dollara samkvæmt gengisvísitölu byggðri á sex helstu gjaldmiðlum heims er nú lægra en nokkru sinni síðan byrjað var að reikna vísitöluna fyrir ríflega þrjátíu árum.

Versnandi horfur vestra
Ástæðan er áhyggjur manna af horfum í bandarísku hagkerfi og sér í lagi af fjármálageiranum þar í landi. Tilkynning Citigroup, stærsta banka heims, um að bankinn gæti þurft að færa til bókar tap upp á 11 milljarða Bandaríkjadollara vegna áhættusamra húsnæðislána vestra hefur bætt í ótta manna við að hætta sé á fleiri slíkum tilkynningum frá stórum fjármálafyrirtækjum. Þrátt fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi lýst því yfir í síðustu viku að áhyggjur af versnandi verðbólguhorfum hefðu ámóta vægi og hætta á niðursveiflu í hagkerfinu telja margir að bankinn muni, þegar til kastanna kemur, lækka vexti frekar á næstunni.