Lið frá Háskóla Íslands komst í aðra umferð í Fly Your Ideas (Komdu hugmyndum þínum á flug) keppninni sem Airbus efndi til 14. október síðastliðinn.

Í keppninni voru lið háskólanema um allan heim hvött til að koma með hugmyndir til að móta framtíð flugiðnaðarins og efla vistvirkni hans.

Liðið skipa þeir Arnar Lárusson, Andrés Gunnarsson og Ásgeir Bjarnason.

Í tilkynningu kemur fram að hugmynd þeirra er að setja þunnar sólarorkusellur á flugvélar sem framleiða rafmagn fyrir farþegarýmið, þ.e. ljós, loftkælingu, afþreyingarkerfi og fleira. Þannig væri hægt að minnka kolefnisútblástur flugvélanna auk þess sem í þessu fælist mikill sparnaður fyrir flugfélögin.

Samkvæmt hugmyndum þeirra fer rafmagn úr sólarorkusellunum beint inn á kerfið þegar aðstæður eru hagstæðar en þegar þær eru óhagstæðar (t.d. í næturflugi) er hefðbundið kerfi notað.

Í annarri umferð munu liðin þróa tillögur sínar áfram og svo verða fimm bestu liðin valin í þriðju og síðustu umferðina sem endar á kynningu á Le Bourget flugsýningunni í París í júní 2009. Það lið sem kemur með þá tillögu sem talin er hafa mesta möguleika á að verða að veruleika og minnka koltvísýrings útblástur fær 30.000 evrur í verðlaun.

Þá kemur fram að þeir Arnar, Andrés og Ásgeir takast nú á við tvö verkefni. Annars vegar að koma sólarsellum inn í framleiðsluferli flugvélanna án þess að gera kostnaðarsamar breytingar á því.

Strangar reglur gilda um það hvernig flugvélaskrokkar eiga að vera. Til dæmis má ekkert vera límt á þá. Sellurnar þyrftu því að vera hluti af skrokknum sjálfum. Einnig ætla þeir að búa til forrit sem reiknar út á hvaða flugleiðum sellurnar framleiða nægilegt rafmagn. Mikilvægt er að sólarsellurnar þyngi flugvélina ekki og því ætla þeir ekki að nota rafhlöður heldur mun rafmagnið sem sellurnar framleiða streyma beint inn á kerfi vélarinnar. Sellurnar sem þeir nota eru einnig sérstaklega léttar og ódýrari en hefðbundnar sílíkonsellur.

Þá kemur fram að mikil þátttaka var í Fly Your Ideas keppninni, 2.350 nemendur skráðu sig til þátttöku og 225 lið frá 130 háskólum í 82 löndum luku fyrstu umferð keppninnar. Liðin sem komust áfram í aðra umferð eru 86 talsins. Tvö lið frá Norðurlöndunum komust áfram, eitt lið frá Íslandi og eitt frá Danmörku.