Seðlabanki Líbanon tók í dag upp nýtt viðmiðunargengi gegn dollaranum í fyrsta sinn í 25 ár. Seðlabankinn felldi gengi líbanska pundsins um 90% og miðar viðmiðunargengið nú við 15 þúsund pund á móti dollaranum. Reuters greinir frá.

Líbanon hefur verið með svokallaða mjúka gengistengingu við Bandaríkjadollarann í áratugi. Formlegt gengi líbanska pundsins gegn dollaranum hafði verið óbreytt í 1.507 frá árinu 1997. Þrátt fyrir gengisfellingu seðlabankans er viðmiðunargengið enn talsvert undir markaðsgengi líbanska pundsins sem stóð í kringum 57 þúsund á móti dollaranum í gær.

Greiningaraðilar telja að breytingin muni ekki hafa veruleg áhrif á hagkerfið sem reiðir sig að stórum hluta á dollarann.

Riad Salameh, seðlabankastjóri Líbanon, segir að breytingin muni hafa hvað mestu áhrifin á viðskiptabanka landsins vegna virðisrýrnunar á eignum í líbönskum pundum. Til að mýkja höggið fá bankarnir fimm ár til að bregðast við afföllum.

Salameh sagði að gengisfellingin væri skref í áttina að því að samræma nokkrar gengisskráningar. Aðgerðin er liður í viðræðum um 3 milljarða dala stuðning frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), sem sumir líta á sem einu lausnina til að endurheimta traust til fjármálakerfisins í landinu eftir efnahagsáföll síðustu ára.

AGS hefur þó kallað eftir tafarlausum aðgerðum til að samræma gengi líbanska pundsins og telur að að stjórnvöld í landinu þurfi að bregðast stax við áætluðu 70 milljarða dala tapi fjármálageirans sem slík aðgerð myndi hafa í för með sér.

Í umfjöllun Reuters segir að gengisfellingin sem tók gildi í dag muni líklega ekki leysa einn helsta vanda sem almenningur stendur nú frammi fyrir, þ.e. takmarkanir á úttektum af dollarareikningum.

Þó stjórnvöld hafi ekki formlega tekið upp gjaldeyrishöft þá hafa líbanskir bankar sett á eigin höft og takmarkað þannig úttektir, bæði í dollurum og líbönskum pundum.