Seðlabanki Bandaríkjanna hefur efasemdir um hvort rétt sé að gera New York - fremur en London - að alþjóðlegri miðstöð þar sem vaxtakjör á skammtímalánum á millibankamarkaði eru ákvörðuð.

Fram kemur í frétt Financial Times að undirbúningur sé hafinn á Wall Street um að koma á fót nýjum viðmiðunarvöxtum fyrir útlán á millibankamarkaði í Bandaríkjadölum, sem kæmi þá í stað Libor-vaxta í dölum sem eru reiknaðir út á millibankamarkaði í London.

Viðmiðunarvextirnir í New York - eða "NYbor" eins og þeir yrðu kallaðir - myndu í meira mæli taka mið af fjármögnunarkostnaði bandarískra banka heldur en evrópskra banka.

Aðgerðirnar koma í kjölfar aukinnar gagnrýni á Libor-vexti í Bandaríkjunum. Samtök breskra bankastofnana (BBA), sem sjá um að taka saman upplýsingar og gögn til útreikninga á Libor-vöxtum, eru að rannsaka ásakanir um að sumir bankar í evrópu hafi gefið upp rangar upplýsingar um fjármögnunarkostnað sinn, sem hafi haft þau áhrif að brengla Libor-vextina.

Í frétt Financial Times er haft eftir sérfræðingum í Bandaríkjunum að Libor-vextir í dölum taki of mikið mið af fjármögnunarkostnaði evrópskra banka. Seðlabanki Bandaríkjanna deilir þeirri skoðun, og telur að evrópskir bankar hafi haft óeðliega mikil áhrif á þróun vaxtakjara í lánsfjárkreppunni.

Evrópskir bankar glíma við mikinn lausafjárskort í dölum. Þeir búa til eignir í Bandaríkjadölum - meðal annars útlán - en hafa hins vegar ekki jafn greiðan aðgang að dölum eins og bandarískir bankar.

Það er aftur á móti talið að bandaríski seðlabankinn vilji ráðast í umbætur á því hvernig Libor-vextir eru reiknaðir, fremur en að segja algjörlega skilið við þá í stað viðmiðunarvaxta í New York. Þetta endurspeglar stefnu seðlabankans um að styðja við hlutverk Bandaríkjadals sem ráðandi gjaldmiðils í alþjóðahagkerfinu.

Forsvarsmenn bandaríska seðlabankans telja að í ljósi þess að dalurinn er alþjóðlegur gjaldmiðill, þá sé skynsamlegt að viðmiðunarvextir á útlánum í dölum á millibankamarkaði endurspegli fjármögnunarkostnað alþjóðlegra fjármálafyrirtækja, en ekki aðeins bandarískra bankastofnana.