Samkvæmt úttekt bandaríska blaðsins Wall Street Journal eru Citigroup, WestLB, HBOS, J.P. Morgan Chase og UBS meðal þeirra banka sem gefið hafa upp of lágar tölur við útreikninga LIBOR-vaxta á Bandaríkjadal.

LIBOR-vextir eru gefnir út daglega af Samtökum breskra bankamanna en þeir miðast við upplýsingar sextán banka um kjör á millibankamarkaði. Blaðið fullyrti í gær að samtökin myndu gefa út skýrslu í dag þar sem leitað yrði leiða til að lagfæra ákvarðanaferlið á bak við LIBOR-vexti.

Um meiriháttar mál er að ræða þar sem LIBOR-vextir eru notaðir sem viðmið í útlánum um heim allan. Það að bankarnir hafi gefið upp of lágar tölur hefur gert það að verkum að vextirnir hafa ekki endurspeglað þá streitu sem í raun og veru hefur ríkt á fjármálamörkuðum.

Á fyrstu mánuðum ársins bentu LIBOR-vextirnir til þess að ástandið hefði verið mun betra en raun bar vitni. Fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal að bankarnir hafi gert þetta til þess að gefa ekki þá mynd af sér að þeir væru í örvæntingarfullri leit að lausafé.

Rangar upplýsingar?

Úttekt blaðsins byggist á samanburði á þróuninni á LIBOR-vöxtum annars vegar og skuldatryggingaálögum fjármálastofnana hins vegar. Það síðarnefnda veitir ekki síður innsýn í fjármálaheilsu bankanna þó svo að sumir hafi talið að tengsl markaðarins með skuldatryggingaálög við raunveruleikann hafi í sumum tilvikum rofnað.

Þar til snemma á þessu ári var mikil fylgni milli þróunarinnar á LIBOR-vöxtum og skuldatryggingaálögum -- bæði vextirnir og álögin hækkuðu þegar fjárfestar tóku að óttast um stöðu bankanna vegna lánsfjárþurrðarinnar.

En samkvæmt Wall Street Journal fóru LIBOR-vextir að lækka seint í janúar, þó svo að áhyggjur af stöðu bankanna færu vaxandi. Blaðið segir að bilið á milli LIBOR og skuldatryggingaálaga hafi verið meira í tilvikum þessara fimm banka en hinna ellefu sem taka þátt í ákvörðun LIBOR-vaxta. Ein möguleg skýring á því er að bankarnir hafi ekki gefið upp réttar upplýsingar um raunverulegan lántökukostnað sinn.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .