Í gær var sagt frá því hvað aðgreinir rafeyrinn Libra frá hefðbundnum rafmyntum á borð við Bitcoin. Markmiðið er göfugt, en eins og við má búast spyrja margir sig hvernig Facebook hyggist hagnast á hinum nýja rafeyri. Margir benda á að ær og kýr samfélagsmiðilsins séu hnitmiðaðar auglýsingar sem byggja á gífurlegri gagnasöfnun um notendur þess, en svo til allar tekjur fyrirtækisins eru vegna auglýsingasölu.

Söfnun og notkun upplýsinga hjá Facebook hefur hins vegar verið töluvert í sviðsljósinu vegna persónuverndarmála og margir óttast þann möguleika að félagið fái aðgang að fjárhagsupplýsingum notenda sinna. Yfirvöld hafa þar farið fremst í flokki, en Bandaríkjaþing bað félagið nýlega um að hætta allri þróun gjaldmiðilsins þar til svör fengjust við spurningum þingsins um málið.

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku að stórum spurningum um friðhelgi, peningaþvætti, neytendavernd og fjármálastöðugleika þyrfti að svara með óyggjandi hætti áður en áfram væri haldið.

Facebook fær ekki aðgang að fjárhagsupplýsingum
Forsvarsmaður Libra hjá Facebook, David Marcus, hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni ekki hafa aðgang að fjárhagsupplýsingum notenda Libra. Rétt eins og með millifærslur á rafmyntum sem skráðar eru í bálkakeðju verða færslurnar nafnlausar.

Það verður því undir útgefanda hins svokallaða veskis – hugbúnaðar sem sér um að framkvæma millfærsluna – komið að tryggja að farið sé eftir persónuverndarlögum og sjónarmiðum, ásamt peningaþvættisreglum fjármálakerfisins.

Facebook mun sjálft gefa út eigin veski, sem væntanlega verður tengt Facebookaðgangi notenda, en undirliggjandi tækni Libra verður opin öllum (e. open source), og því mun hver sem er geta hannað veski fyrir gjaldmiðilinn, án tengingar við samfélagsmiðilinn. Útgáfa nýrra Libra verður þó áfram aðeins á hendi Libra-samtakanna, og að öllum líkindum háð einhvers konar auðkenningu.

Vaxtagreiðslur gætu skilað vænlegri ávöxtun
Annað sem Facebook og fleiri gætu hagnast á í sambandi við útgáfuna er aðild að Libra-samtökunum. Samtökin eru skilgreind sem sjálfseignarstofnun sem rekin skuli án hagnaðarsjónarmiða. Eins og áður segir eru þeir fjármunir sem notendur verja í kaup á Librum settir í varasjóð til að tryggja að ávallt sé til nóg fjármagn til að greiða þeim sem vilja skipta Librunum sínum aftur í lögeyri. Samtökin sjá um að safna þeim saman og fjárfesta þeim í áhættulitlum eignum eins og ríkisskuldabréfum.

Fyrir slíkar eignir fást greiddir vextir, og verða þeir notaðir til að standa straum af kostnaði við rekstur og uppihald kerfisins, ásamt fjárfestingu og þróun þess, og styrkja til ýmissa stofnana og verkefna. Verði eitthvað afgangs fá aðilar að samtökunum svo restina, sem greiðslu fyrir upphaflega fjárfestingu sína. Ekki verða greiddir vextir fyrir Libra-innstæður notenda.

Rafmyntafréttasíðan Coindesk bendir á að vextir af varasjóðnum geti orðið allveruleg upphæð, og hinir upphaflegu fjárfestar sem lögðu verkefninu til stofnfjármagn, gætu endað á að fá fjárfestingu sína margfalt endurgreidda árlega. Þess fyrir utan yrðu gríðarleg völd fólgin í því að stýra svo stórum fjárfestingasjóði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .